139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við gerð kjarasamninga og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þær ákvarðanir sem voru teknar í tengslum við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í í desembermánuði varð niðurstaðan sú að fjármálastofnanir og lífeyrissjóðirnir mundu fjármagna þær vaxtaniðurgreiðslur sem átti að ráðast í. Það eru 6 milljarðar í ár og 6 milljarðar á næsta ári. Þetta voru aðgerðir sem á að fara í tvisvar og lífeyrissjóðir og fjármálastofnanir áttu að standa undir því. Það varð ekki niðurstaða um hvernig farið yrði í þessa fjármögnun af þeirra hálfu. Það er rétt að það átti að leita samráðs um það við fjármálastofnanirnar en það hefur þó komið fram opinberlega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að það yrði meðal annars gert með skattlagningu. Ég vek athygli á því að við erum aðeins að tala um 3,5 milljarða kr. af þeim 6 milljörðum sem fjármálastofnanirnar og lífeyrissjóðirnir áttu að skila í fjármögnun á þessum vaxtaniðurgreiðslum sem sannarlega hafa komið félögum í ASÍ til góða.

Þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir í samhengi við hreina eign lífeyrissjóðanna sem er um 2 þús. milljarðar kr. Við erum að tala um innan við 0,1% af þeirri fjárhæð sem einungis er tímabundin í tvö ár. Mér finnst ótrúlegt að því skuli beitt að það þurfi að koma til skerðingar á lífeyrisgreiðslum vegna þessa. Það er líka mjög sérkennilegt í samhengi við það að þessa dagana erum við að ganga frá bótum í almannatryggingakerfi til lífeyrisþega og atvinnulausra sem kosta munu ríkissjóð á þessu ári og því næsta næstum því 20 milljarða kr. Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt að forseti ASÍ skuli setja málið fram með þeim hætti sem hann gerir.