139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðstoð við bændur á gossvæðinu.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að hafa skilning á því að í ríkisstjórninni og hjá þeim aðilum sem eru að vinna að þessu máli þurfum við að hafa svigrúm til að skoða málið í heild sinni. Það var brugðist mjög fljótt við af hálfu almannavarna, lögregluyfirvalda og ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Við höfum átt tvo fundi með almannavarnayfirvöldum sem meðal annars hafa farið yfir svæðið og kortlagt hvað þarf að gera eftir þessar náttúruhamfarir. Niðurstaðan á síðasta fundi sem við héldum með lögregluyfirvöldum og almannavörnum var sú að ráðuneytisstjórahópi yrði falið að leggja fyrir ríkisstjórnina tillögur um það hvernig að þessum málum skyldi staðið. Við höfum ekki enn fengið niðurstöðu ráðuneytisstjórahópsins og það er með svipuðum hætti sem er unnið að þessu máli og varðandi Eyjafjallagosið.

Mér er alveg ljóst að Bjargráðasjóður stendur ekki vel. Síðast þegar við skoðuðum hann og var sótt í hann, það var fyrir Eyjafjallagosið, held ég að innan við 100 milljónir hafi verið til í honum. Ríkissjóður þarf að leggja til verulega fjármuni vegna þessa goss, m.a. í Bjargráðasjóð. Það þarf enginn að draga í efa að ríkisstjórnin muni standa heil að þessu máli með sambærilegum hætti og í Eyjafjallagosinu. Það verður að fullu staðið við lög og reglur að því er varðar Bjargráðasjóð og Viðlagasjóð og önnur þau atriði sem ríkisstjórnin þarf að koma að til að bæta þetta tjón.

Af þessu gefna tilefni skal ég hafa samband við ráðuneytisstjóranefndina og athuga hvar málið er statt, en ég er sannfærð um að ráðuneytisstjóranefndin vinnur að þessu máli af eins miklum krafti og hún mögulega getur.