139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[14:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Já, ég vonast til þess hvað varðar seinni þáttinn að svar við honum komi á eftir.

Hitt er ekki rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, að ekki sé góður rökstuðningur í þessari niðurstöðu fyrir því að þetta nánast brjóti gegn stjórnarskránni. Hér er verið að tala um 65. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisregluna svokölluðu, og hér er mismunað eftir landshlutum. Hér er verið að leggja á skatta sem síðan er skipt einhvern veginn tilviljanakennt, og ég segi eftir geðþóttaákvörðun ráðherra. Stjórnarskráin passar sérstaklega upp á að þetta megi ekki gera svona. Það er ekki hægt að bjóða upp á það að hæstv. forsætisráðherra segi að honum finnist álitið illa rökstutt. Sannleikurinn er sá að þetta er niðurstaða fjármálaráðuneytisins. Frumvarpið er lagt fram án þess að nokkur tilraun sé gerð til að útskýra með rökum í greinargerð af hverju þetta er gert með þessum hætti. Það er bara ekki hægt, virðulegur forseti, að ríkisstjórn leggi fram frumvarp þótt hún viti fyrir fram um þessa miklu annmarka á því.

Ég spyr: Hvernig stendur á því að það var gert? Það er fullkomlega (Forseti hringir.) óskiljanlegt og ekki ásættanlegt.