139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þar sem ég hef skoðað þetta mál dreg ég í efa að það gangi gegn stjórnarskránni en menn ganga auðvitað úr skugga um það við meðferð málsins í þinginu. Ég minni enn og aftur á það sem við fórum í gegnum árið 2007 þegar mikill aflabrestur varð, þá var úthlutað eftir ákveðnum aðferðum. Sú úthlutun var unnin hjá framkvæmdarvaldinu. Ef þessi úthlutun núna brýtur stjórnarskrána mætti eins skoða hvort sú úthlutun hefði þá brotið stjórnarskrána. Menn þurfa bara að ganga úr skugga um þetta.

Varðandi hagfræðiálit og áhrifin á stöðu útgerðar o.s.frv. var það að hluta til unnið í stóru nefndinni sem vann þetta mál í eitt og hálft ár. Þar eru til margar hagfræðilegar úttektir. Miðað við það sem ég hef skoðað í fyrirliggjandi frumvarpi eru um 65% af auðlindaarðinum eftir í höndum núverandi handhafa verði þetta frumvarp að lögum (Forseti hringir.) sem er ansi ríflegt en það mun allt koma í ljós þegar hagfræðingarnir skila áliti sínu.