139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Viðfangsefni jafnaðarmanna um allan heim er að tryggja rétt kynslóðanna til auðlindanýtingar, afnema órétt og ójöfnuð og virða mannréttindi. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna stendur nú frammi fyrir sögulegu tækifæri til að færa til betri vegar þann órétt og ójöfnuð sem hlotist hefur af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Í 28 ár hafa byggðir landsins liðið fyrir afleiðingar fiskveiðistjórnarkerfisins sem við búum við, kerfis sem upphaflega var sett á til bráðabirgða og átti að endurskoða fáum árum síðar. Síðan hafa aflaheimildir safnast á fárra hendur, útgerðarfyrirtækin hafa stækkað, sameinast og fært út kvíarnar með sókn á erlend mið og markaði. Fiski sem veiddur er í íslenskri lögsögu er í auknum mæli landað í gámum í erlendum höfnum þaðan sem hann fer inn í erlendar fiskvinnslustöðvar og skapar þar bæði verðmæti og atvinnu.

Hér heima hafa byggðir misst frá sér veiðiheimildir, fiskvinnslufyrirtækjum fækkar og byggðarlögin sem áður byggðu atvinnu og verðmætasköpun á útgerð og fiskvinnslu standa mörg eftir eins og fiðurlausir fuglar, samfélög í sárum sérhagsmunagæslu, og arðurinn hefur að mestu runnið inn í útgerðina sjálfa og jafnvel í áhættufjárfestingar utan greinarinnar en á sama tíma hefur greinin skuldsett sig upp í rjáfur.

Á sama tíma hefur tangarhaldið á sjálfri auðlindinni harðnað. Kvótahafarnir, sem upphaflega fengu veiðiheimildir sínar fyrir ekkert, hafa gerst lénsherrar í kerfi þar sem enginn nýliði á sér innkomu von nema gerast leiguliði forréttindahópsins sem fyrstur fékk gæðunum úthlutað. Kerfið sem upphaflega átti í orði kveðnu að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskstofna og verðmætasköpun varð með tímanum uppspretta verðmætasóunar á hafi úti með brottkasti og hráefnissóun, sérhagsmunagæslu, misréttis, stéttskiptingar innan greinarinnar og byggðaröskunar. Mörg þúsund störf hafa farið forgörðum í nafni rekstrarhagræðingar og hagkvæmni innan greinarinnar. Þar með fengu sérhagsmunirnir byr undir vængi á kostnað samfélagslegra gilda.

Þetta er óréttlætið sem jafnaðarmenn vilja leiðrétta með heilbrigðum leikreglum og gagnsæi í kerfinu til eflingar atvinnulífi og lífsafkomu fólks í byggðum landsins um leið og við viljum eyða hinni margumtöluðu óvissu í sjávarútveginum til framtíðar.

Þetta eru markmiðin sem máli skipta. Hugtök og nafngiftir á útfærsluleiðum, hvort við tölum um fyrningu, innköllun og endurúthlutun, samningsleið, tilboðsleið — öll þessi hugtök skipta litlu máli ef við náum því sem að er stefnt. Og nú er loksins komið að því að sjávarútvegsráðherra mælir fyrir frumvarpi um nýja fiskveiðistjórn. Eftir tveggja ára mas, fjas, átök og vangaveltur, samráð við hagsmunaaðila, reiptog milli flokka, fordómafulla umræðu byggða á tilraunum hagsmunaaðila til hugsanalesturs, heift og átök sem enn sér ekki fyrir endann á er frumvarp ráðherrans loksins komið fram.

Það er mikilvægt að þetta frumvarp skuli nú vera komið inn í þingið því að það skiptir máli og var orðið tímabært að koma málinu á dagskrá í þinginu í stað þess að ræða það í getgátum og með yfirlýsingum um efni sem fæstir höfðu séð eða haft fyrir augum. Sú biðstaða sem verið hefur í málinu undanfarin missiri hefur verið óþolandi og engum til góðs. Menn hafa farið langt fram úr sér í umræðunni, deilt um ímyndaða hluti og meint efnisatriði frumvarps sem enginn hefur séð og það er ekkert vit í slíkri stjórnmálaumræðu. Þess vegna, og þó ekki væri nema þess vegna, fagna ég því að frumvarpið skuli nú loks vera komið fram í dagsljósið því að við höfum þá að minnsta kosti umræðugrundvöll fyrir augunum.

Þetta frumvarp kemur ekki alskapað eins og Aþena út úr höfði Seifs, það þarfnast að sjálfsögðu breytinga. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur fallist á að frumvarpið verði lagt fram í þessari mynd því að við teljum að hægt sé að vinna með þennan grunn. Frumvarpið felur í sér mikilvæga kerfisbreytingu, meintur eignarréttur útgerðarinnar á fiskveiðiauðlindinni breytist samkvæmt frumvarpinu í tímabundinn nýtingarrétt gegn gjaldi. Um leið er leitast við að bæta byggðum landsins þá röskun sem þær hafa orðið fyrir vegna núverandi kerfis. Kvótalausar og kvótalitlar útgerðir eiga þess nú kost að losna undan leiguliðaáþjáninni og braski með aflaheimildir á að ljúka.

Sjálf hef ég fyrirvara við ýmsar greinar frumvarpsins og ég áskil mér allan rétt til að beita mér fyrir frekari breytingum á því. Mínar athugasemdir eru þessar helstar:

Í fyrsta lagi lít ég svo á að kerfið, eins og það birtist okkur upp af blöðum frumvarpsins, sé enn þá fulllokað. Ég tel að unnt væri að auka frekar jafnræði og atvinnufrelsi með því að veita kvótalausum og kvótalitlum útgerðum rýmri aðgang að nýtingarsamningum og ég tel þarft að opna gáttir milli nýtingarsamninga og potta. Leigupotturinn er of lítill að mínu viti, hann þarf einnig að geta stækkað hraðar en frumvarpið gerir ráð fyrir til þess að hann geti verið raunverulegt mótvægi við nýtingarsamningana og til þess að tryggt sé að verðmyndunin á leigumarkaðnum sé eðlilegri.

Ég hef líka gert athugasemdir við handstýringarvald ráðherrans, sem er mjög mikið í núgildandi lögum, allt of mikið, og þyrfti að minnka enn frekar. Ég tel að það væri í anda góðrar stjórnsýslu að reyna að draga úr því mikla ráðstjórnarvaldi sem gert er ráð fyrir í núverandi lögum og endurspeglast í frumvarpinu. Og ég hefði talið eðlilegast að umsýslan með aflaheimildirnar færi, að minnsta kosti að einhverju leyti, í gegnum Auðlindasjóð og að þangað rynnu tekjur og þaðan yrði þeim ráðstafað á grundvelli heilsteyptra og gagnsærra reglna.

Ég tel að gjaldið fyrir nýtingarsamningana sé fulllágt og ég tel að það þyrfti að binda við vísitölu söluverðmætis sjávarafurða eða verðtryggja með einhverjum hætti. Þá mætti skoða verðmyndunarþáttinn betur og fyrirkomulag forleiguréttarins svo að ég nefni hér nokkur atriði sem ég tel að þarfnist frekari umfjöllunar og frekari átektar hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins.

Þrátt fyrir þessa annmarka tel ég tímabært að frumvarpið komi fram svo að við getum farið að vinna með þau álitamál sem uppi eru um framtíð fiskveiðistjórnar því að biðstöðunni verður að ljúka.

Mikið hefur verið talað um mikilvægi þess að ná sátt um þetta mál. Í umræðunni fram til þessa hefur verið lítill sáttatónn enda hafa stríðandi hagsmunir, mjög harðir hagsmunir, tekist á í þessu máli. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að ganga erinda hagsmunaaðila, hagsmunaaðilar stríða að sjálfsögðu. Það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að vega og meta þá hagsmuni sem undir liggja og taka afstöðu með almannaheill og þjóðarhag að leiðarljósi. Það verður því okkar verkefni að finna leiðir til að lenda þessu máli á sem farsælasta hátt.

Hér hefur líka verið vísað til þess að sú viðræðunefnd sem skipuð var og starfaði hér í rúmt ár, undir forustu hæstv. núverandi velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, hafi gefið veganestið inn í þá vinnu sem ætti að eiga sér stað og hefur farið fram um vinnslu frumvarpsins síðan. Skoðum þá aðeins hvað það var, hvert veganestið var, sem sú skýrsla sem nefndin skilaði af sér lagði upp með.

Menn lögðu upp með þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni og um það var enginn ágreiningur. Menn lögðu upp með það að unnt væri að semja um eða koma á fyrirkomulagi sem gerði ráð fyrir því að það sem kallað hefur verið eignarréttur yrði í reynd og staðfest sem tímabundinn afnotaréttur. Menn opnuðu á nýtingarsamninga. Menn virtust sammála um að smíða mætti fiskveiðstjórnarkerfi sem kæmi til eflingar atvinnu í landinu og byggðum. Það voru allir sammála um að huga þyrfti að arðsemissjónarmiðum en þá ekki aðeins arðsemi greinarinnar heldur hinni þjóðhagslegu arðsemi.

Menn töluðu um og voru sammála um að hafa þyrfti ákveðinn fyrirsjáanleika og menn voru sammála um að takmarka mætti framsal. Allir þessir þættir liggja undir í þessu frumvarpi. Okkur getur greint á um einstök efnisatriði en þessir grundvallarþættir eru allir undirliggjandi í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna.

Það er mikilvægt, frú forseti, að koma að þessu verkefni með opnum huga og takast á við það með rökum. Það er nóg komið af þeirri styrjaldarumræðu sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði og missiri í þessu máli og hnefahögg og stríðsyfirlýsingar skila engu. Það er staðfastur og einbeittur vilji stjórnvalda og staðfastur og einbeittur vilji þjóðarinnar, ef marka má skoðanakannanir, að breyta þessu kerfi til betri vegar og á þann vilja og á þær raddir eigum við að hlusta. Það er skylda okkar að setjast niður, setjast að þessu máli með opnum huga, með málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi, og leiða það til lykta. Þetta er eitt mikilvægasta verkefnið sem stjórnvöldum hefur verið falið um langt skeið. Ég mundi segja að þetta væri eitt mikilvægasta verkefnið í atvinnumálum, í byggðamálum og til lengri tíma fyrir efnahag þjóðarinnar.

Frú forseti. Ég lít á endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins sem hluta af endurreisn samfélagsins og íslenskir jafnaðarmenn geta ekki staðið hjá við uppbyggingu atvinnuveganna og ofurselt þá tilviljunarkenndum markaðslögmálum. Nógu lengi hefur sú vegferð staðið og afleiðingar hennar verið of dýru verði keyptar. Ég vil hvetja til þess að við lærum af sögunni og látum þetta tækifæri ekki ganga okkur úr greipum heldur tökum við frumvarpinu með það fyrir augum að gera það þannig úr garði að það verði landi og þjóð til farsældar og að það verði hinir víðtækari hagsmunir, almannahagsmunir, sem ráði för á kostnað þeirra sérhagsmuna sem svo hart hefur verið deilt um síðustu ár.