139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ráðstöfun aflaheimilda og tilfærsla milli tegunda er spurning um hvort við ætlum að ná einhverri sanngirni í það að útdeila takmörkuðum gæðum. Heildarkerfisbreytingin gengur að sjálfsögðu út á það fyrst og fremst að þeir eigi aðkomu að greininni sem ekki hafa haft aðkomu að henni áður og að þeir sem hafa verið ofurseldir leiguliðakerfinu eigi þess kost að koma sem frjálsir menn inn í þessa grein og nýta hana sér til lífsviðurværis.

Varðandi það hvort eitthvert réttlæti sé í því að þeir sem hafa selt aflaheimildir og farið út úr kerfinu komi inn í greinina á ný er það náttúrlega spurning sem við gætum spurt um allar atvinnugreinar. Er eitthvert réttlæti í því að menn sem hafa braskað og farið illa með fé komist inn á einhvern markað á ný? Hvað er þingmaðurinn þá að segja? Vill hann afnema frjáls viðskipti í landinu? Vill hann afnema það atvinnufrelsi sem mönnum stendur til boða þótt þeir hafi farið flatt á fjármálasvellinu í fortíðinni? Ég held að þetta sé svolítið flóknari umræða en við getum leyst í knöppum andsvörum.