139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sakna svars sem ég óska þá eftir að komi fram í síðara andsvari hv. þingmanns, um ástæðuna fyrir þessum fjórum tegundum sem eru sérstaklega fyrndar og gerðar sérreglur um. Ég tel að þær muni koma harkalega niður á minni og meðalstórum útgerðum.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hún teldi að bæta þyrfti aðgengi kvótalausra útgerða að heimildunum, eða hugsanlega nýtingarsamningum eins og hv. þingmaður orðaði það, og ég kallaði eftir svari um það hvort henni fyndist eiga að vera sama aðgengi hvort sem menn væru búnir að selja frá sér varanlegar heimildir eða ekki. Það var það sem ég var að kalla eftir en ekki það að menn gætu ekki keypt sig aftur inn í greinina. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Aðalatriðið er þó að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur samkvæmt þessum leigupotti búið til nýja nýtingarsamninga. Finnst hv. þingmanni að þá eigi að taka tillit til þess hvort þeir sem sækja um nýtingarsamningana hafi þegar selt frá sér varanlegar heimildir út úr greininni?