139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðgengið og nýtingarsamningana er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að nýtingarsamningum verði úthlutað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði lúta að rekstrarhæfi fyrirtækja, að því að það séu löglegir kjarasamningar við starfsfólk, að fyrirtæki séu í skattskilum og hafi ekki brotið lög í greininni. Þetta eru alltakmarkandi skilyrði, mundi ég segja, og ættu að tryggja að ekki komist hvaða sótraftur sem er inn í nýtingarsamning. Slík skilyrði verða að vera málefnaleg, við getum náttúrlega ekki brotið gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, ákvæðum um atvinnufrelsi og aðgengi manna að atvinnugreinum. Ég tel hins vegar að þau skilyrði sem hér hafa verið talin upp ættu að nægja til að það ætti að vera tryggt að samningur til 15 ára um nýtingu aflaheimilda byggi á einhverjum eðlilegum og lífvænlegum forsendum.