139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, menn ættu að draga úr stóryrðum og ræða málefnalega um þessa atvinnugrein eins og aðra hluti hér inni. Engu að síður hjó ég eftir því að hv. þingmaður sagði að hér væru sérhagsmunir að störfum sem hefðu orðið til þess að fólki hefði fækkað í sjávarbyggðum og í atvinnugreininni. Það hefur komið fram að fyrir 20 árum voru 15 þús. manns starfandi í greininni en eru kannski 6–7 þús. núna. Er þá þingmaðurinn að tala um að í eðlilegum tækniframförum sem hafa orðið í þessari grein eins og öðrum séu einhverjir sérhagsmunir?

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í umræðum um daginn að byggðakvótinn væri hinir íslensku ríkisstyrkir þegar við vorum að tala um að greinin væri sjálfbær og arðsöm. Eru það ekki sérhagsmunir þegar pólitíkusar deila út byggðakvótum sem eru þá ríkisstyrkir? Eru það ekki frekar sérhagsmunir en eðlilegar tækninýjungar og framþróun í atvinnugreininni sjálfri?