139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ég tel það gjald sem verið er að greiða núna málamyndagjald og jafnvel þó að það hækki um helming eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu er það mjög lágt gjald, 13 kr./kg. Þar er enn verulegt borð fyrir báru. Hagtölurnar úr greininni sjálfri sýna að það er fullt svigrúm til að hækka þetta gjald frekar, en það sem ég vil leggja meiri áherslu á í sambandi við þetta er að gjaldið sé bundið einhverri verðvísitölu, það sé bundið söluverðmæti sjávarafurða upp úr sjó þannig að þetta sé ekki föst frosin krónutala. (TÞH: Svaraðu …) Þess vegna hefði mér fundist eðlilegt að menn þyrftu að gera hreinlega tilboð í nýtingarsamningana. Þar með fengjum við það svart á hvítu hvað útgerðin væri raunverulega fær um að greiða fyrir aflaheimildir því að þeir sem eiga kvóta í dag telja eðlilegt að þeir sem ekki eiga kvóta geti greitt allt að 300 kr./kg fyrir aflaheimildirnar. Við sjáum að skilyrðin og svigrúmið eru til staðar.