139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þingmann á að hún á eftir að svara spurningum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um það að taka sérstaklega fjórar tegundir út fyrir sviga.

Að öðru leyti langar mig að dvelja við þessar spurningar sem hv. þingmaður velti upp, annars vegar um hagkvæmnina og hins vegar byggðaröskun. Þetta er grundvallaratriði. Það sem hefur gerst í hagræðingunni innan sjávarútvegsins er það, eins og við öll vitum, að nú er verið að sækja fiskinn á færri skipum en áður. Það hefur dregið úr sóknartengdum kostnaði og það hefur líka haft afleiðingar fyrir byggðirnar. Við gerum okkur grein fyrir því.

Þá spyr ég: Vill hv. þingmaður að þessi þróun snúist við, að nú verði farið að sækja fiskinn á fleiri skipum o.s.frv.? Það sama hefur gerst í fiskvinnslunni. Fiskvinnsluhúsunum hefur fækkað, það hefur haft byggðalegar afleiðingar en ástæðan er meðal annars sú að afköst í fiskvinnslunni hafa aukist. Er það slæm eða góð þróun? Mér fannst hv. þingmaður segja áðan að tækniþróun væri góð en hún hefur auðvitað þessar afleiðingar. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það þurfi að takast á við það með öðrum hætti? Það er ekki hægt að gera það endalaust innan ramma fiskveiðistjórnarkerfisins. Þá hljótum við að horfa á aðra þætti í miklu meira mæli.