139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um lengd fundartímans í dag. Nú hefur hæstv. forseti upplýst að ekki er komin niðurstaða í það hversu lengi þingfundur muni standa í dag. Við þekkjum það að þótt sjómannadagurinn hinn formlegi sá ávallt fyrsti sunnudagur í júní hafa málin þróast þannig að æ stærri hluti af hátíðahöldum sjómanna hefur færst líka yfir á laugardaginn. Eins og við vitum er þetta kannski stærsti hátíðisdagur ársins í sjávarbyggðunum. Við sem komum úr sjávarbyggðunum höfum alltaf tekið þátt í þessum hátíðahöldum og teljum það meðal annars mikilvægan hlut af þingmannsstarfinu að geta gert það og því er mikilvægt fyrir okkur að hafa tækifæri til þess. Þar fyrir utan finnst mér ekki gott yfirbragð á því að við ræðum þetta umdeilda mál hérna um það leyti sem fólk er að tygja sig til þessara hátíðahalda og undirbúa þau. Það færi betur á því að við reyndum að haga skipulagi fundanna betur svo við gætum með eðlilegum hætti lokið þessum umræðum í dag á skikkanlegum tíma.