139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil víkja að ákveðnum atriðum sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ágætu ræðu. Í fyrsta lagi er það þetta með hagfræðilegu úttektina á frumvarpinu, ég legg mikið upp úr henni og óskaði eftir því að hún yrði gerð. Hún er væntanleg á næstu dögum og varðar áhrif einstakra þátta í frumvarpinu. Ég legg áherslu á að við förum síðan yfir þau útfærsluatriði.

Ég mun líka hugleiða það, og það hefur verið rætt, að samhliða því þyrfti kannski að gera samfélagslega úttekt á frumvarpinu. Við höfum fjölda skýrslna sem unnar hafa verið af Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélögum og ýmsum aðilum um áhrif núverandi kvótakerfis og hvernig það hefur leikið ýmsar byggðir atvinnulega séð. Við þurfum líka að horfa á þann þátt. Ég veit að hv. þingmaður er mér sammála í því að samfélagsgerðin, sem stendur að baki sjávarútveginum, er mikilvæg. Þetta þurfum við að horfa á allt saman.

Að sjálfsögðu er um grundvallarkerfisbreytingu að ræða en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún gangi yfir á 15 árum og á þeim tíma ættu þær breytingar sem það hefur í för með sér að fá sinn aðlögunartíma. Að sjálfsögðu munu þær einhvers staðar koma niður en meginmálið er, eins og hv. þingmaður vék að, að nægur fiskur sé í sjónum og að hægt sé að auka aflaheimildir. Það er undirstaðan fyrir framtíðarþróun sjávarútvegsins. Þar að auki, sem ég veit (Forseti hringir.) að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um, er mikilvægt að sjávarauðlindin sé fullkomlega í forsjá íslensku þjóðarinnar og ráðstöfun hennar, (Forseti hringir.) að við förum ekki að afhenda þá forsjá til Evrópusambandsins (Forseti hringir.) eða annarra aðila. Þar veit ég að við (Forseti hringir.) erum mjög sammála.

(Forseti (KLM): Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að virða tímamörk í andsvörum.)