139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann byrjaði ræðu sína á því að segja að honum fyndist farið aftur í tímann, til þess tíma áður en við takmörkuðum veiðarnar með því að setja aflamarkskerfið á. Hann benti á óhagræðið í greininni, þá sem á endanum var niðurgreitt með því að fella gengið á kostnað landsmanna að sjálfsögðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann sagði í restina í sambandi við að færa heimildir á milli aðila, hvort hann viti um eitthvert sveitarfélag eða eitthvert sjávarpláss sem hafi kvartað yfir því og sé hugsanlega aflögufært um að færa veiðiheimildir frá sér til einhvers annars.

Hv. þingmaður kom líka inn á uppbyggingu á fiskstofnunum. Af því að ég hef flutt hér frumvörp um aflaráðgefandi nefnd sjómanna sem kæmi skoðunum sínum á framfæri og hugmyndum um hvað mætti veiða af afla á hverju ári, sem hefur reyndar í tvígang verið fryst eða svæft í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það sjónarmið mitt að við þurfum að ræða þetta á allt öðrum nótum en við erum að gera. Eftir til að mynda fjögurra ára ofveiði á ýsustofninum að mati Hafrannsóknastofnunar, sem lagði til ákveðið aflamark fjögur fiskveiðiár í röð, hafa 33% verið veidd umfram það aflamark á hverju einasta ári. Maður hefði talið að nú væri komið að skuldadögum og skera yrði verulega niður veiðiheimildir af því að búið væri að ganga á stofninn, en þá gerðist hið merkilega að stofnunin lagði til að ýsukvótinn yrði aukinn um 83% sem segir manni hversu mikilvægt er að fá aflaráðgefandi nefnd sjómanna og endurskoða þessar stofnstærðarmælingar og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður geti tekið undir þetta sjónarmið?