139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég held að það sé alveg skýrt að enginn vill hverfa til fyrri tíma, alla vega ekki þeir sem hafa þekkingu á þeim tíma eða muna eftir honum eða hafa vit á því að spyrja hvernig þetta var áður en kvótakerfið var sett á og eru þar af leiðandi ekki eingöngu að ræða núverandi kvótakerfi á grundvelli þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem verið hefur undanfarin fimm eða tíu ár.

Þó að ég hafi tekið vel í að vera með aflaráðgefandi nefnd og aukið samráð vil ég jafnframt ítreka að það er minn vilji að ráðgjöf til ráðherra sé byggð á vísindalegum grunni. Ég held að sú leið sem við höfum farið sé mjög skynsamleg og farsæl. Við höfum hins vegar ekki alltaf farið eftir ráðgjöfinni og ég held að það sé hluti af þeim vandamálum sem við höfum lent í í uppbyggingu einstakra stofna. Í öðrum tilvikum er vanmat viðurkennt í greininni, stundum ofmat. Það er erfitt að telja fiskana í sjónum.

Við framsóknarmenn höfum verið með þá stefnu að efla rannsóknir á hafi og stofnum og setja langtímanýtingarstefnu fyrir hverja tegund en jafnframt efla rannsóknir á þessu samspili, eins hv. þingmaður kom inn á síðast, bæði ólíkra stofna og lífríkinu í heild sinni. Það er ákaflega mikilvægt að við stöndum vörð um auðlindina og byggjum upp áframhaldandi forustu okkar á þessu sviði í heiminum. Ég held að þessari atvinnugrein farnist vel svo fremi að við getum komið í veg fyrir að svo stórfelldar breytingar eins og felast í þessu frumvarpi verði skyndilega að lögum.