139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú hagræðing sem varð að eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi var sársaukafull. Hún skildi víða eftir sár í byggðum landsins. Það var allt fyrirsjáanlegt. Menn ræddu það í þessum þingsal árið 1990 að þegar menn minnkuðu skipaflotann og létu heimildirnar safnast saman hjá þeim sem færastir eru í því að gera út mundi það hafa afleiðingar. Það voru ýmsar mótvægisaðgerðir sem voru lögleiddar og gripið hefur verið til og við höfum stanslaust rætt það hvernig við ættum að koma til móts við þá sem orðið hafa verst úti vegna þessa. En var það gott fyrir þjóðarheildina? Svo sannarlega. Var þetta til góðs fyrir Ísland? Svo sannarlega. En nú vill ráðherrann hverfa aftur í átt til félagslegt kerfis. Hann vill fjölga bátum. Ráðherrann þarf að svara því til langs tíma: Tekst honum með þessum breytingum að fjölga fiskum? Tekst honum með þessum breytingum að auka aflaverðmæti úr sjó? Tekst honum að auka hagkvæmni veiðanna? Dregur úr fjárfestingu í greininni? Svarið við öllu þessu er nei, því miður, og það eru vondu tíðindin fyrir íslenska þjóð að þótt hann ætli með lýðskrumi að tala til fárra sem eru á kantinum að bíða eftir að komast inn í kerfið, er ekkert gagn að því fyrir þjóðarheildina.