139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Framsal er innan fiskveiðiársins, leigubraskið er vandamál sem verður að taka á. En hugmyndir sem fram koma í frumvarpinu um að banna alfarið varanlegt framsal tel ég að séu til tjóns, þær tel ég að muni draga úr nauðsynlegri hagræðingu og sveigjanleika fyrir greinina.

Hér undir eru nokkrar stórar spurningar, í fyrsta lagi spurningin um það hversu hátt veiðigjald greinin þolir? Í öðru lagi, er hægt að færa heimildirnar úr varanlegum heimildum yfir í tímabundnar? Það er algerlega óútfært og illa unnið í frumvarpinu. Það eru spurningar um hvort það eigi að gera eitthvað meira en þegar hefur verið gert í ýmiss konar byggðatengdum úrræðum sem smíðuð hafa verið. Ég er á móti breytingum í átt til ósjálfbærni, sem sífellt munu kalla á meira og meira, draga úr arðsemi og valda offjárfestingu, þannig að við þurfum að gæta okkar á slíku.

Það finnst mér allt saman vera hægt að ræða og ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin reynir ekki að skapa víðtækari sátt um það.