139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni þessi svör. Ég get verið sammála honum í mörgu af því sem hann sagði. En það stendur þó eftir óútskýrt — og ég veit ekki hvort þingmaðurinn getur svarað því frekar en ég gat í ræðu minni, hvað þá að ég fengi svör frá ríkisstjórnarflokkunum um það — hvað við þurfum þá að ræða til að ná sem víðtækastri sátt.

Hvað er það sem stendur út af? Ég hef ekkert heyrt um það annað en stóryrði og frasa. Útfærslan í frumvarpinu virðist hins vegar vera allt öðruvísi og galnari en það sem menn tala um að ósætti sé um og þurfi að laga. Þá koma hér allt í einu alls konar sérkennilegir hlutir.

Ég vildi heyra álit þingmannsins á því í hverju það ósætti felst sem er á milli okkar sem gagnrýnum frumvarpið og stjórnarliða sem leggja það fram.