139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það megi kannski skipta þessu í tvennt. Annars vegar eru nokkrar ranghugmyndir sem einfaldlega þarf að leiðrétta eins og þetta með fullt forræði íslenska ríkisins yfir auðlindinni, vald þingsins til að setja um nýtingu auðlindarinnar reglur o.s.frv. — að um þetta sé einhver ágreiningur eða á því leiki einhver vafi, það er bara misskilningur hjá ríkisstjórninni.

Við erum hins vegar með önnur atriði í þessu frumvarpi sem aldrei mun takast sátt um við mig eða minn flokk. Þar nefni ég til dæmis stóraukið vald sjávarútvegsráðherra til að fara með aflaheimildir og dreifa þeim um landið. Ég er á móti aukinni miðstýringu og félagsvæðingu fiskveiðistjórnarkerfisins, ég er á móti því. Ég sé engan tilgang í því að vera að láta ráðherrann hafa svona mikil völd og mikinn ráðstöfunarrétt yfir heimildunum. Það hefur verið nefnt hér í umræðunni, og ég held að það sé mjög mikið til í því, að það stefnir í að sjávarútvegsráðherrann verði stærsti útgerðaraðilinn á Íslandi. Ég er á móti því.