139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ábendingu, þessa fyrirspurn. Það er mín skoðun að það sé hneyksli og til skammar fyrir ríkisstjórnina að leggja svona illa undirbúið og illa reifað mál fyrir þingið, að ekki skuli liggja fyrir drög að nýtingarsamningum með öllum tilbúnum ákvæðum, að menn skuli ekki hafa lagt í þá vinnu til að svara öllum þeim spurningum sem upp koma vegna þessarar lagaheimildar. Það er forkastanlegt að mönnum detti í hug að þingið fari að veita ráðherranum heimild til að gera svona hluti án þess að hafa hugmynd um hvernig búa eigi um framlengingarákvæði og annað þess háttar.

Við erum að tala um heildarlög fyrir mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga. Og það er til skammar fyrir þingið að mönnum skuli koma til hugar að leggja málið fyrir þingið með eintómum lausum endum í allar áttir, það er algjörlega til skammar fyrir það fólk sem að þessu stendur.