139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérstaklega merkilegt í ljósi þess sem kom fram í ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í morgun að ógerningur væri að tilgreina hvað tæki við eftir 15 ár. Það stendur hér beinlínis um 6. greinina að ógjörningur sé að segja til um það hvaða aðstæður verði uppi þegar hugsanleg framlenging tekur við. Ég minni á að hér er verið að tala um að hámarki til 15 ára og jafnframt stendur þar að það geti verið til skemmri tíma, allt eftir mati á því hvernig viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki stendur.

Mig langar að spyrja formann Sjálfstæðisflokksins: Er verið að fórna íslensku sjávarútvegsauðlindinni á altari Evrópusambandsins? Treysta ríkisstjórnarflokkarnir sér ekki í það að breyta lögum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi til að hægt sé að liðka fyrir þeim samningum sem Samfylkingin stendur í við Evrópusambandið? Eða er eitthvað annað sem liggur undir vegna þess að þessi lög eiga að falla úr gildi eftir 23 ár?