139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þar sem þetta mál er á dagskrá og mjög margir á mælendaskrá og einungis örfáir dagar eftir af þinginu vil ég deila þeirri skoðun minni með forseta að ég held að enginn raunverulegur ásetningur liggi fyrir hjá ríkisstjórninni um að klára þetta mál og gera að lögum á þessu þingi. Það eina sem skortir er að hæstv. ráðherra, eftir atvikum forsætisráðherra, taki af skarið um þetta og lýsi því yfir hér á þinginu að það standi ekkert annað til en í mesta lagi að fá málið til nefndar og fá um það umsagnir.

Um leið og sú yfirlýsing væri fram komin, hæstv. forseti, er orðið ljóst að engin þörf er á því að vera að eyða mörgum dögum í umræður um mál sem ríkisstjórnin ætlar ekki að gera að lögum. Ég vil því að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að fá fram vilja ríkisstjórnarinnar, hvort það er ætlun ráðherrans að gera þetta að lögum eða ekki, það skiptir sköpum um það hvernig þingstörfin þróast næstu daga.