139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í dag erum við að ræða um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem stundum hefur verið kallað stærra frumvarpið vegna þess að þau eru tvö. Það má segja að það sé rétt, að það sé stærra frumvarpið, vegna þess að í því eru boðaðar meiri kerfisbreytingar. Ég vil fyrir það fyrsta segja að margt í því, svo sem 1. gr. og þau grunnprinsipp sem þar eru sett inn um að þjóðin eigi fiskinn í sjónum eins og aðrar auðlindir og að það eigi að festa í stjórnarskrá, heyrist mér almenn sátt um á hinu háa Alþingi. Bind ég miklar vonir við að í stjórnlagaráði komi fram tillaga um þessa auðlind svo og aðrar auðlindir okkar Íslendinga sem við ætlum að festa í stjórnarskrá sem sameign þjóðarinnar allrar og að notkun á henni verði þannig að greitt sé fyrir hana gjald sem rennur í sameiginlegan sjóð okkar allra, auðlindasjóð.

Eins og ég sagði er grunnstefið sem talað er um í þessu frumvarpi niðurstaða svokallaðrar endurskoðunarnefndar sem skilaði af sér í september 2010, nefndar sem hóf störf fljótlega eftir myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009. Þar er lagt til að fara leið sem fékk nafnið samningaleið og ég hef áður sagt að ég ruglaðist stundum á nafninu og kallaði það sáttaleið, kannski vegna þess að ég hef alla tíð talið að útfærslan í samningaleiðinni, með öllum þeim fyrirvörum sem einstakir nefndarmenn settu fram og flokkað er sem frekari útfærslur, sé grunnur að sáttaleið Íslendinga. Það er grundvallaratriði. Hvað stendur í því?

Ég get ekki séð annað, virðulegi forseti, en að í ályktun Framsóknarflokksins frá nýafstöðnu flokksþingi sé tekið undir meginþættina sem þar koma fram (Gripið fram í.) og svo hlustaði ég líka á formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, sem hefur svarað því, m.a. í andsvari við mig, að Sjálfstæðisflokkurinn standi við allt það sem kemur fram í tillögum og niðurstöðu endurskoðunarnefndar. Það eru þessi grundvallarprinsipp.

Virðulegi forseti. Við erum komin með algjöran grunn að sátt og það er það sem við eigum að vinna eftir. (Gripið fram í: Vantar bara frumvarpið.) Frumvarpið er vissulega komið fram og við erum að karpa um það á Alþingi. Eins og með litla frumvarpið erum við að karpa hér um ýmis atriði í útfærslu, eins og hvort búa eigi til nýjan flokk í strandveiðiflokki sem er undir þremur brúttótonnum, smábátaflokk, eða hvort útreikningur á veiðileyfagjaldi til sveitarfélaga verði þannig gerður að afli frystitogara síðustu 15 árin verði ekki tekinn með. Þetta eru útfærsluatriði sem koma frá framkvæmdarvaldinu og eru lögð hér inn. Það sem ég hef heyrt víða og get tekið undir er að margir þessara þátta eru þannig að við vitum að í nefndastarfi okkar þingmanna, þegar málið er komið til löggjafans, tökum við þetta til endurskoðunar, köllum eftir umsögnum og bætum það sem þarf að bæta ef eitthvað er að. Að sjálfsögðu er sitthvað sem má bæta. Ég hef sagt áður að mér finnst langbest að vinna þannig opið og heiðarlega að segja frá því að ég samþykkti þetta til framlagningar með ákveðnum fyrirvörum, m.a. við þá þætti sem ég hef nefnt hér. Þess vegna segi ég: Þessi grunnprinsipp eru þannig að ég leyfi mér að halda því fram, virðulegi forseti, að á Alþingi Íslendinga hafi aldrei áður verið eins mikil samstaða um að laga fiskveiðistjórnarlögin að þessum grunnprinsippum.

Eignarhaldið verður að vera skýrt, samningaleið, samningur um nýtingu aflaheimilda, nýtingarsamningur. Ég verð að segja alveg eins og er að ég kann alltaf voðalega vel við að vera á fundum um sjávarútvegsmál og annað þar sem menn koma fram og segja að þjóðin eigi fiskinn í sjónum, að þetta sé sameiginleg auðlind okkar og að þjóðin hafi nýtingarrétt. Það gerðist nýlega á fundi okkar þingmanna Norðausturkjördæmis þar sem Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, sagði stutt og laggott: Kvótinn er eign þjóðarinnar.

Fyrir svona mönnum ber maður mikla virðingu en svo lendir maður á móti öðrum sem verða aldrei sammála, þar sem menn steyta hnefa og segja að okkur komi málið ekkert við og að það hafi myndast eitthvert eignarhald sem geri það að verkum að Alþingi Íslendinga megi ekki breyta neinu í fiskveiðistjórnarlögum án þess að einhverjar fébætur komi fyrir.

1. gr. í núverandi fiskveiðistjórnarlögum er alveg klár og hana þarf ekki að rifja upp. Þess vegna segi ég að þetta er einstakt tækifæri sem við höfum til að ná þessari sátt. Við ætlum að ráðstafa þessu frá ríkinu gegn gjaldi til ríkisins. Það var einn af fyrirvörunum sem ég hafði. Þó að ég sé fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála og hlynntur því að efla sveitarfélögin í landinu er ég ekki á þeirri skoðun að þessum peningum af auðlindagjaldinu sé best deilt út til sveitarfélaga. Heldur vil ég sjá gjaldið fara í einn sameiginlegan auðlindasjóð okkar Íslendinga. Þangað inn á að koma auðlindagjald af sjávarútvegi, jafnt sem fjarskiptarásum, fallvötnum og jarðvarma. Þennan auðlindasjóð á að taka í gegn og nota til atvinnuuppbyggingar, m.a. og kannski sérstaklega á landsbyggðinni, á þeim stöðum þar sem nauðsynleg hagræðing í sjávarútvegi hefur átt sér stað en störfum fækkað.

Ég get tekið nýlegt dæmi, virðulegi forseti. Á Seyðisfirði, þeim litla fallega stað, hafa menn mjög lengi unnið að atvinnusköpun við að byggja upp álkaplaverksmiðju sem mundi vinna úr hráefni sem búið er til í álverksmiðjunni á Reyðarfirði. Ég hef sagt áður að þetta er verkefni sem öll reiknilíkön segja að sé arðbært, þjóðhagslega hagkvæmt og muni standa undir sér. Þetta eru ekki einhverjir dagdraumar sem ganga ekki upp og fara á hausinn á nokkrum mánuðum eða nokkrum árum. Þetta er raunverulegt tækifæri en þá stendur á því að loka dæminu og fá í það fjármagn vegna þess að Framtakssjóður Íslands sem var síðastur í þessari keðju vildi ekki fjárfesta á þessum stað.

Virðulegi forseti. Auðlindasjóður í okkar eigu sem meðal annars hefði haft pening af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar hefði verið upplagður til að kaupa hlutabréf eða veita styrki í þetta verkefni sem svo auðvitað væri til sölu um leið og einhver vildi kaupa. Þá rynni féð aftur inn í auðlindasjóðinn sem tæki þá til við aðra atvinnuuppbyggingu á öðrum stöðum með aðrar hugmyndir. Þetta er mín sýn, virðulegi forseti, þetta er sýn jafnaðarmanns á það hvað á að gera við arðinn af sameiginlegri eign okkar Íslendinga. Þess vegna virðist mér full samstaða um þessi grundvallaratriði sem ég hef gert að umtalsefni og fleiri til. Við á Alþingi Íslendinga getum sagt, sem kannski birtist þjóðinni ekki nógu vel í þessu karpi sem við eigum um þetta mál núna, að við viljum breyta þessum meginatriðum sem ég hef gert að umtalsefni, að eignarrétturinn verði bundinn við stjórnarskrá, úthlutun nýtingarheimilda, ákvæði þar sem komið er til móts við strandveiði og minni aðila o.s.frv.

Síðan er deilt um það hvort hægt sé að banna veðsetningu. Ég veit ekki hvort svo er og tek skýrt fram að í mínum huga er aldrei verið að ræða um afturvirkt ákvæði. Þetta er auðvitað það sem kemur eftir á. Ég er mjög hugsi yfir því hvaða möguleika einhver sem væri kominn með nýtingarsamning hefði á því að fjármagna það og hvort bankar og peningastofnanir mundu taka einhvers konar veð í nýtingarsamningnum. En það verður aldrei þannig að viðkomandi aðili geti fénýtt það.

Virðulegi forseti. Það er verkefni okkar á Alþingi Íslendinga að taka mál eins og þetta og gera á því þær breytingar sem þarf að gera í sem mestri sátt. Það er hægt og það er dæmi um breytt vinnubrögð á Alþingi að við eigum að geta unnið á þennan hátt. Ég hef áður sagt að ég vil berjast fyrir því að það verði gert.

Virðulegi forseti. Tíminn líður hratt á þessum degi og við stefnum inn í sjómannadagshelgi. Það mætti segja margt fleira um þetta frumvarp sem hér er komið fram en ég vil aðeins enn og aftur ítreka að verkefni okkar hér er að taka þetta mál og fylgja því eftir í nefndarvinnu sem annars staðar. Þess vegna er ég mjög ánægður með þá niðurstöðu sem ég heyri að er að verða um þetta frumvarp, að það verði rætt og því komið til nefndar. Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sendir það til umsagnar og þá geta þeir sem fá málið til sín sent inn umsagnir, athugasemdir eða tillögur um breytingar sem gætu orðið til batnaðar. Að lokum verða allar þær ábendingar fluttar inn í ráðuneyti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þær skoðaðar og það tekið inn sem gott er þar, sem verður örugglega fjölmargt, og sett inn í nýtt frumvarp sem verður flutt á hinu háa Alþingi þegar það kemur saman í byrjun október.

Sem samgönguráðherra lét ég setja ýmis frumvörp sem við ætluðum að flytja á netið til umsagnar fyrir allan almenning, fyrir alla þá sem vildu tjá sig um málið. Það bárust fjölmargar athugasemdir og margar af þeim voru mjög góðar. Þær komu ekki endilega beint frá hagsmunaaðilum heldur áhugasömum einstaklingum sem létu sig málin varða. Sumir höfðu sérþekkingu á málinu og gátu lagt gott til. Það var tekið undir sumt af því, öðru var hafnað og síðan kom frumvarpið fram. Dæmi um slíkt er frumvarp til nýrra umferðarlaga svo þetta er hægt.

Ég hef sótt ýmsa fundi frá því að þetta frumvarp var lagt fram, þar á meðal mjög stóran fund, rúmlega 120 manna, sem haldinn var á Norðfirði þar sem við, þingmenn Samfylkingarinnar í því kjördæmi, buðum meðal annars formanni LÍÚ að ávarpa fundinn. Það var góður fundur, mikið rætt, og við hyggjumst halda því áfram og bjóða öðrum aðilum eins og fulltrúum frá Landssambandi smábátaeigenda og þess vegna einstaklingum að koma á slíka fundi, ræða málið og segja okkur hvað þeim finnst um þetta.

Mér er nokkur vandi á höndum, virðulegi forseti, því að mér er illa við að hafa orðrétt eftir það sem sagt hefur verið á þessum fundum, í lok viku að mér finnst. Ég vil frekar leggja mitt af mörkum til þessarar umræðu þannig að við förum að komast að niðurstöðu um hvað skuli gert, hvernig þetta verði rætt áfram og hvernig við ætlum að vinna málið í næstu viku á þeim dögum sem eftir lifa af þingstörfum áður en þingi verður frestað fram til 2. september. Ég tel það hægt og að það sé verkefni okkar, svo ég ítreki það enn einu sinni, að fara í gegnum þetta og komast að niðurstöðu hvað þetta varðar eins og um allt annað sem við eigum eftir þessa fáu daga við lagasetningu á hinu háa Alþingi. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að það hryggir mig stundum að heyra það sem haft er eftir okkur í fjölmiðlum og hvað birtist almenningi í landinu um hvernig tekist er á um mál hér vegna þess að auðvitað er flest unnið í sátt og mörg mál samþykkt samhljóða á þinginu.

Ég á enga ósk heitari en að við gerum það hér þó að ég geri mér grein fyrir því að við munum aldrei ná fullri sátt um svo mikilvægt mál sem þetta. Miklu meiri sátt en er í dag er þó nauðsynleg. Að því er hægt að vinna ef unnið er eftir þeim tillögum sem hér hafa komið fram og ef allir eru samtaka. Það má segja að það gott hafi komið út úr þessari umræðu sem hér hefur verið að mér virðist sem allir flokkar á Alþingi séu sammála um stærstu grunnprinsippin í frumvarpinu. Ég tek skýrt fram að þrátt fyrir fyrirvara mína við einstaka þætti styð ég þessi grunnprinsipp. Frá þeim verður aldrei hvikað, aldrei, en ég tek eftir að sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Hreyfingar hafa allir talað um að þessi grunnprinsipp séu hlutir sem þeim hugnist. Það er leiðarstefið, það er stærsti vísirinn að því að vinna þetta mál til lykta.