139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Starfshættir á Alþingi eru töluvert breyttir eftir hrun en fyrir hrun, þar er mikill munur á. Ég kom hingað inn 1999 og sjálfstæði þingsins og sjálfstæði alþingismanna sem löggjafarvalds er nú miklu meira en var þá. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Það er ekkert slæmt við það að þessi frumvörp séu komin fram til Alþingis og við ræðum þau. Það versta við það er að við erum á síðustu dögum þingsins og það tefur ýmis önnur mál. Þessi umræða er í raun og veru ágæt. Síðan fer málið til nefndar og verður unnið þar. Löggjafarvaldið tekur við, fagnefndin tekur við, níu manna nefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fer með málið, sendir það til umsagnar o.s.frv. Þetta er það verkefni sem við höfum sett okkur og vinnulag. Við erum í 1. umr., síðan fer málið til nefndar, nefndin vinnur með það, svo kemur það til 2. umr. þar sem aðalumræðan fer fram og breytingartillögur koma fram og svo 3. umr. Ágætisvegvísir sem alltaf hefur gefist vel.

Ég veit ekki hvort það er einhver sérstakur sáttatónn sem ég er að færa fram, það kann að vera. En ég get aðeins sagt það fyrir mitt leyti og þegar ég vitna til þess að töluvert breytt vinnubrögð eru hér, þá held ég að okkur hafi tekist að taka fyrir öll mál sem komu til þeirrar nefndar sem ég stýri, iðnaðarnefnd, og ljúka þeim í sátt milli allra flokka þar sem allir aðilar hafa verið á nefndarálitum fyrir utan eitt mál, sem er frumvarp um hvort eigi að fækka úr sjö í fimm í stjórn Byggðastofnunar. Það var eina málið þar sem viðskilnaður varð milli nefndarmanna hvað það varðar að þessu sinni. (Gripið fram í.)