139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því að þingmaðurinn hefur setið svona lengi á þingi hlýtur honum að vera ljóst að engin 2. umr. fer fram um þetta mál eftir 1. október á næsta ári. Það sem gerist núna, ef ríkisstjórninni verður að ósk sinni að frumvarpið klárist fyrir 1. umr., þá fer það til nefndar, en 1. október gerist það að flytja þarf málið upp á nýtt, þá líklega með þeim breytingum sem menn fá í gegn á frumvarpinu í sumar. Þess vegna er alveg jafngott að taka málið af dagskrá þingsins núna og leggja það til hliðar, vinna í því og koma með endurnýjað frumvarp til 1. umr. 1. október eða í byrjun október eins og lög gera ráð fyrir og eins og frumvörp eru hér unnin. Ég hafna því að löggjafinn hafi styrkst hin síðari ár því það hefur verið dregið svo úr vægi löggjafans bæði fjárhagslega og faglega eftir hrunið að það er ekki ríkisstjórninni til sóma.

Mig langar í kjölfarið á þessari fullyrðingu minni að spyrja hvort þingmaðurinn sé sammála því sem birtist í frumvarpinu að ráðherravæða fiskveiðistjórnarkerfið. Það eru óteljandi reglugerðarákvæði í minna frumvarpinu þar sem embættismönnum er falið með reglugerðum að útfæra kerfið, löggjafinn er að framselja lagasetningarvaldið til sín inn í ráðuneytin. Það er ekki breyting til bóta á því starfi sem á að fara fram á löggjöfinni.

Eins langar mig til að spyrja þingmanninn — hér stendur til að samningar skuli vera að hámarki til 15 ára. Ómöguleiki ræður því hvort það sé framlengt í átta ár. Tengist þetta eitthvað aðildarumsókninni að ESB vegna þess að farið er að vinna þar eftir 20/20 leiðinni? Hér er verið að frumvarpavæða 20/20-leið Evrópusambandsins. Hér er verið að leggja til þessa takmörkun á veiðirétti, og ekki nóg með það heldur er ákvæði í 32. gr. frumvarpsins um að lögin falli úr gildi. (Forseti hringir.) Hvað tekur við? Er það Evrópusambandið (Forseti hringir.) sem bíður þá með opinn faðminn eða hvað ætlar ríkisstjórnin sér að gera árið 2034?