139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat um það í ræðu minni og í raun þarf ég engan leiðarvísi um það að það mál sem hér er fer til nefndar og hún sendir það til umsagnar og umsagnir berast inn. Það er gott vinnulag. Við notum þá sumarið til að fá athugasemdir, tillögur o.s.frv. um málið hvað svo sem sjávarútvegsnefnd vinnur mikið með það. En sjávarútvegsráðuneytið fær þá þessar umsagnir líka og tillögur og getur tekið þær og gert þær að sínum ef það vill breytinguna strax og lagt fram nýtt frumvarp í upphafi þings 1. október, eins og mér heyrist andinn vera í þeim samningaumleitunum sem eiga sér stað um þessar mundir um hvernig við ætlum að ljúka þessu máli. Ég held að þetta séu ekki slæm vinnubrögð. Það er ekkert slæmt við það að við gefum okkur töluvert langan tíma til að vinna þetta mál. En ég ítreka það enn einu sinni, virðulegi forseti, að það verður aldrei gefið eftir hvað grunnatriðin varðar, þau eru þarna inni. Í þeirri vinnu hefur tekist að mynda allsherjarsátt um þau og það hefur ekki verið áður.

Hv. þingmaður spyr mig út í heimildir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að setja reglur um hitt og þetta. Einhvers staðar hef ég heyrt að þær séu á milli 70 og 80. Það er auðvitað eitt af því sem þarf að vinna upp annaðhvort í nefnd eða í nýju frumvarpi sem verður lagt fram, að minnka það vegna þess að þau ákvæði eiga að vera sem fæst. Við ætlum að taka þetta atriði sem mest út úr pólitískum farvegi og hægt er.

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um, Evrópusambandið og fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hef hlustað mikið á hv. þingmann ræða um það og mér finnst þetta vera orðin eins og hálfgerð síbylja. Hv. þingmaður má ekki koma í þennan ræðustól, sama hvort talað er um (Forseti hringir.) fiskveiðistjórn eða eitthvað annað, öðruvísi en það sé Evrópusambandið sem ráði för.

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála því.