139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ræðuna. Mér fannst hún að mörgu leyti mjög góð. Það var að mér fannst mikill sáttatónn í máli hv. þingmanns, sem hefur nú ekki komið fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem tekið hafa til máls enda eru þeir afar fáir.

Það sem hv. þingmaður bendir á um þessar grunnstoðir sem allir voru orðnir sammála um og við þurfum ekki að deila lengur um, þ.e. að þetta sé óskorað í eigu þjóðarinnar og útdeilt á hennar vegum og nýtingarsamningar gerðir, þá held ég að allir séu sammála um það.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það sé eiginlega styttra á milli manna ef menn setjast niður og taka hv. þingmann sér til fyrirmyndar, aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar.

Mig langar aðeins að velta upp einni spurningu. Nú er sérstakt ákvæði í lögunum um að auka fyrningu í fjórum tegundum, þ.e. þorski, ýsu, steinbít og ufsa, sem byggist á því að miðað er við ákveðnar úthlutanir eins og þær eru í dag. Gagnvart ýsunni er það með þeim hætti að nú er ýsukvótinn 50 þúsund tonn, var fyrir rúmu ári eða tveimur fiskveiðiárum rúm 100 þúsund tonn, þetta er gríðarlega mikil skerðing. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða skoðanir hann hafi á þessu, og að þetta gildi þá ekki eins með alla stofnana, að taka skuli út sérstaklega þessa fjóra stofna. Hver er skoðun hans á því?

Hv. þingmaður talaði líka um strandveiðar, hverju þær hefðu skilað. Við erum alveg sammála um að hafa þarf einhvern ákveðinn aðgang inn í kerfið. Það sem hefur oft komið fram í máli mínu er að mér finnst óeðlilegt að þeir sem hafa selt sig út úr greininni komi þarna aftur inn í hana. Mér finnst að þeir geti bara keypt sig inn í hana aftur. Væri hv. þingmaður til að mynda sammála því að gerð yrði úttekt á því hverjir, sem stunda strandveiðar í dag, hafi á einhverjum árum áður selt sig hugsanlega út úr greininni og að það yrði dregið fram í umræðunum?