139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er einn þáttur í þessari sátt, þ.e. hvernig við ætlum að haga því að nýliðar geti komið inn eða eitthvað af frjálsum veiðum, eins og við teljum að sé í gegnum strandveiðina með þeim kostum og göllum sem fylgja því.

Hv. þingmaður spyr mig út í það hvort það atriði sem margir ræða um að inn í strandveiðarnar séu að koma aðilar sem hafi selt sig út úr greininni áður. Já, vafalaust er það svo. Ég hygg að hv. þingmaður þekki jafn vel til þess eins og ég sem lifum og hrærumst úti á landi þar sem allir þekkja alla, þá eru mörg svona dæmi. Þess vegna tel ég t.d. eitt atriði sem við eigum að setja í þessi lög, og það á ekki að vera í neinni reglugerð, þ.e. þegar úthlutað er til strandveiða í framtíðinni, hvað sett er mikið í það. Það þarf að skrifa í lög að það er ætlun okkar á Alþingi að það sem er í strandveiðum og það sem menn fiska í strandveiðum muni aldrei, aldrei verða þannig að það muni skapa kvótaeign eða eitthvað þess háttar. Við þekkjum það hvernig farið var í gegnum ýmsar fyrri breytingar. Það þekki ég eftir að hafa verið hér frá árinu 1999 og einhvern tíma í sjávarútvegsnefnd sem þá hét. Það má aldrei verða vegna þess að þetta er ekki hugsað þannig að menn geti komið og sagt: Það er ómögulegt að vera í dagakerfi, má ég ekki haga þessu á þessu tímabili? Komi svo eftir einhvern tíma og segi: Má ég ekki hafa þetta í kvóta, ég fiska bara þegar mér hentar best og bestu aðstæður eru til að fiska o.s.frv.? Það skal aldrei verða, enda er það ekki hugsunin bak við þetta.

Hvað varðar að leggja í pottana það sem hv. þingmaður talar um, þá finnst mér það athyglisvert að sú tillaga sem hefur komið frá LÍÚ um að í þessa potta, sama hvort það eru leigupottar, sem heitir reyndar hlutar og ég held að sé betra nafn, þá leggi allir í. Mér finnst það mjög athyglisvert að það komi frá LÍÚ og verður gaman að sjá hvernig þeir mundu útfæra þær tillögur.