139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski dæmi um niðurstöðu sem hægt er að tala sig á hvað þetta varðar ef hér kemur fram frá hv. þingmanni sami skilningur eða sama hugsun og ég hef hvað varðar strandveiði. Svo getum við alltaf deilt um það hve mikið á að fara í strandveiði. Það er bara atriði til að útfæra í tali milli manna og útfærslu.

Hitt varðandi leigupottana og útfærsluna á því sem ráðherra á þá að setja með reglugerð, ég tel betra að það sé gert sem mest í lögum. Ég tel að eftir því sem reglugerðarákvæðin eru færri þeim mun betri verði lögin. Við eigum ekki að setja lög sem verða lítið annað en vinna fyrir lögfræðinga fyrir dómstólum á komandi árum og sem taka frá tíma þar. Það er ekki góð lagasetning. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hvað varðar leigupottana, þá ætla ég að nota tækifærið um leið og ég tel mig vera búinn að svara hv. þingmanni hvað það varðar, að mér finnst það dálítið athyglisvert — af því að ég hef vitnað í fundi sem hafa verið haldnir bæði með okkur einstökum þingmönnum kjördæma og sem við höfum haldið — og svolítill ljóður á röksemdafærslu útgerðarmanna þegar menn tala um hvað eigi að taka mikið frá, þá finnst mér fréttin koma alltaf þannig út að frá og með þessum tíma eigi bara að veiða 85% af kvótanum en ekki 100%.

Virðulegi forseti. 15% verða veidd áfram og hægt verður þá að leigja þau í gegnum kvótaþing og það gengur til sameiginlegs sjóðs okkar landsmanna, í auðlindasjóð eða ríkissjóð eða hvað það er, eða til að borga kostnað ríkisins við hafrannsóknir, eftir á að útfæra það. En 15% gufa ekkert upp. Við ætlum að veiða þau áfram. Staðreyndin verður sú að það verður þá leigt út í gegnum kvótaþing í staðinn fyrir að einstakir aðilar sem telja sig eiga þetta í dag en eru aðeins með nýtingarrétt hjá okkur, eru að leigja það frá sjálfum sér fyrir kannski 300 kr. kílóið og hirða peningana alla sjálfir. Það er eitt af því sem nokkrir menn hafa talið leigubrask og er einn af göllum á núverandi kerfi.