139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu erum við að upplifa alveg einstakt tækifæri því að hæstv. forsætisráðherra hefur gengið í salinn og virðist ætla að sitja hér undir ræðu minni. Fagna ég því vegna þess að hér eru ýmsar spurningar um þetta frumvarp sem ekki hefur verið svarað. Ef hæstv. forsætisráðherra vildi láta svo lítið óska ég eftir því að fá að beina til hennar nokkrum spurningum sem hún gæti þá svarað. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki tekist að svara þeim spurningum sem ég hef borið upp þannig að það sé sagt, en sá ráðherra er einmitt líka í þingsalnum.

Eins og allir vita leggur Framsóknarflokkurinn mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar, jafnt meðal ólíkra pólitískra afla og hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma. Þessa stefnu settum við á síðasta flokksþingi okkar og er mikill sáttatónn í framsóknarmönnum, enda var mikill fögnuður þegar sáttanefndin svokallaða skilaði af sér. Hún vann mjög gott verk og virtist vera að nást hér þjóðarsátt um þetta mikilvæga kerfi, þessa atvinnugrein sem hefur bjargað því sem bjargað varð hér eftir hrunið, og skilar greinin okkur gríðarlegum tekjum til þjóðarbúsins. Oft var þörf en nú er nauðsyn á að standa saman að sátt um þessa atvinnugrein þó að þarna standi nokkrir punktar út af. Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar um að hafa það áfram upp í loft úti í þjóðfélaginu og hefur notað ýmist orðfæri til að halda því á lofti, eins og veðsetningu á aflaheimildum, en það vildi svo vel til að hæstv. núverandi forsætisráðherra var þingmaður þegar þessu kerfi var komið á. Vil ég koma því aftur á framfæri því að sú vísa er ekki nógu oft kveðin miðað við málflutning hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í dag. En það er eins og tíminn gleypi ýmsan sannleik enda hefur hæstv. ráðherra starfað í þessari stofnun í rúmlega 30 ár.

Mig langar til að koma aðeins inn á það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Möller þar sem hann talar um að það kvótakerfi sem við búum við nú sé ekki nógu gott og nánast til óþurftar. Þá vil ég minna á að Samfylkingin fer fyrir því hér að lögleiða ETS-kerfið svokallaða sem snýr að því að setja bönd á losunarheimildir. Það kerfi er byggt upp alveg nákvæmlega eins og íslenska sjávarútvegskerfið því að þar er úthlutað kvótum til atvinnuvega. Flugið fær þá kvóta frítt eins og var gert og var stundum talað um í sjávarútvegskerfinu á sínum tíma. Samfylkingin vill taka þetta kerfi út af borðinu hjá okkur varðandi sjávarútvegsauðlindina en með hinni hendinni er hún á sama tíma að innleiða löggjöf Evrópusambandsins sem er nánast spegilmynd af íslenska sjávarútvegskerfinu. Svona er þetta oft hjá þessari ríkisstjórn.

Hér hefur líka mikið verið rætt um skil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, að löggjafinn sé að verða sterkari gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þessu er ég algjörlega ósammála. Um þetta frumvarp hér kemur til dæmis algjör andstaða frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Framkvæmdarvaldið getur ekki einu sinni komið sér saman um að leggja fram frumvörp og eru þó þeir ráðherrar sem sitja í þeim ráðuneytum úr sama flokki. Svo hörð atlaga er gerð að frumvarpinu í áliti frá fjárlagaskrifstofunni að það má færa fyrir því full rök að málið sé ekki þingtækt. Þess vegna er á engan hátt verið að styrkja hér löggjafarvaldið þegar svona illa unnin frumvörp koma inn í þingið.

Hvers eiga þingmenn að gjalda þegar þeir þurfa að fjalla hér dag eftir dag um einhver lagatæknileg atriði og hvort frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni standist yfir höfuð stjórnarskrá? Þetta er ekki boðlegt fyrir Alþingi Íslendinga. Ríkisstjórnin hefur hundsað það að setja á dagskrá þingsins frumvarp mitt um að hér verði stofnuð lagaskrifstofa Alþingis. Hún gæti sorterað þessi mál út, sett svona handónýt frumvörp strax í pappírstætarann og viðkomandi aðilar sem leggja fram svona handónýt frumvörp þurfa þá að byrja upp á nýtt. Nei, hér er ætlast til þess að þingmenn ræði lagatæknileg atriði, fari fram á það að fyrir nefndirnar komi stjórnskipunarfræðingar og sérfræðingar á þessu sviði.

Hér hefur komið fram að til dæmis launakostnaður framkvæmdarvaldsins er farinn fram úr öllu hófi á yfirstandandi ári. Svo er verið að telja þingmönnum trú um að það sé verið að skera niður í ráðuneytunum. Þvílíkt og annað eins, það eru tæpir 2 milljarðar sem ráðuneytin eru búin að keyra fram úr bara á þessu ári, 2011, og við erum stödd í miðri kreppu. Framkvæmdarvaldið sogar til sín allt fjármagn á kostnað þingsins og það er nokkuð sem ég kem aldrei til með að sætta mig við.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni í þessari ræðu minni er 6. gr. Hún fjallar um það hvernig eigi að úthluta nýtingarleyfunum. Það er talað um að Fiskistofa annist samningsgerð í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég talaði um ráðherravæðingu áðan, svo sannarlega er hún til staðar og þarna er verið að ýta undir enn frekari spillingu. Það skiptir máli hver situr í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, það er undir ráðherra komið hverjir fá þessar nýtingarheimildir.

Hér er talað um að samningur um nýtingarleyfi skuli í upphafi vera að hámarki til 15 ára. Hér er ekki ákvæði um að þeir skuli vera í 15 ár, eins og margir hafa talað um, heldur að hámarki til 15 ára. Það er ekki neitt fast í hendi með það því að neðar, við umfjöllun um 6. gr., kemur að ekki þyki „rétt að mæla fyrir um að allir samningar skuli vera til jafnlangs tíma, enda er nauðsynlegt að ákveðið svigrúm verði til staðar, m.a. með tilliti til hve samningagerð reynist tímafrek. Þó er rétt að árétta að fulls jafnræðis skuli gætt. Þannig ber að leysa með sama hætti úr samningum aðila sem eins er ástatt um“.

Hvaða opna heimild er þetta, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Hvers vegna eiga ekki allir að sitja við sama borð þegar úthlutun fer fram í fyrsta sinn samkvæmt þessu nýja frumvarpi? Í hvaða jafnræðisreglu er verið að vísa í þessari lagagrein þegar talað er um að leysa beri sambærileg mál með sambærilegum hætti? Við hvað á að miða? Í 6. gr. kemur fram mjög þröngt ákvæði sem heggur mjög nálægt atvinnuréttindum manna, verð ég að segja og fullyrði — og það er brot á stjórnarskrá — að við samningsgerð skuli taka tillit til fjárhagsstöðu útgerðar, þar með talið skila á greiðslum opinberra gjalda, og að í gildi séu kjarasamningar við áhafnir.

Þetta er hreint brot á atvinnuréttindum manna því að það er ekki ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála sem á að athuga hvort fyrirtækin standi skil á opinberum gjöldum. Það eru innheimtumenn ríkissjóðs sem sjá til þess og ef það eru veruleg vanskil á opinberum gjöldum hafa menn tækifæri til að greiða það upp, að öðrum kosti er fyrirtækjunum lokað. Hvers vegna er verið að blanda þessu saman við úthlutun aflaheimilda þegar innheimtumenn ríkissjóðs sjá um þessi mál?

Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er enn í salnum langar mig til að beina til hennar spurningu um leyfi sem skulu vera að hámarki í fyrstu umferð til 15 ára. Er verið að vísa hér í 20/20-reglu Evrópusambandsins þar sem Ísland er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Heildarafli Íslendinga er 40% af sjávarafla Evrópusambandsins, það er eftir miklu að slægjast fyrir Evrópusambandið að fá Ísland inn. Treystir ríkisstjórnin sér ekki til að fara fram með breytingu á lögum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og ætlar í staðinn að fara þá bakleið að taka til sín fiskveiðiheimildirnar á þeim grunni sem kveðið er á um í 6. gr.? Það á nefnilega að vera afskaplega matskennt hverjir fá þessi nýtingarleyfi. Raunverulega stendur ekkert í hve langan tíma.

Skyldi eitthvert fyrirtæki fá nýtingarleyfi til 15 ára? Þá er mjög þrengt að þeirri framlengingu sem er boðuð í frumvarpinu sem á að vera til átta ára eftir 15 árin því að um 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hafi samningsaðili staðið við allar samningsskuldbindingar sínar skal hann eiga rétt á viðræðum um endurskoðun og hugsanlega framlengingu samnings sem hefjast skulu sex árum fyrir lok gildistíma samnings og ljúka skal eigi síðar en fimm árum fyrir lok gildistíma samnings. Áréttað skal að ekki er um skýlausan rétt til framlengingar samnings að ræða.“

Þarna er verið að setja annan aðilann á hnén, þarna er verið að setja útgerðina á hnén fyrir framan ráðherrann. Fiskistofa fer með þetta vald fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og þarna er verið að knésetja atvinnuveginn fyrir framan ráðherrann. Velkomin til ársins 1932, frú forseti. Ætla menn virkilega að fara með þetta inn í þessa spillingarstemningu eins og var hér þegar einstaklingar þurftu að þekkja ráðherra til að fá fyrirgreiðslu?

Þetta kemur manni ekki á óvart í þessari umræðu. Þó er það besta eftir í umfjöllun um 6. gr. þar sem þetta er rökstutt, eða við skulum segja ekki rökstutt því að það er ekki hægt að finna rökstuðning með þessari ráðherravæðingu í frumvarpinu, því að þar kemur fram, og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti þetta inn í ræðu sína í morgun, að það sé ógjörningur að tilgreina fyrir fram í löggjöf hvaða breyttu forsendur geti valdið því að samningur verður ekki framlengdur. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem við sjáum að hámarki til næstu 15 ára því að hér kemur fram að það skuli veitt nýtingarleyfi í að hámarki 15 ár og svo er þrengt svo mjög að þessari framlengingu að það er nánast vitað fyrir fram að ekki verður um framlengingu að ræða.

Í lokin langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra sem sitja í salnum: Þegar þessu 15 ára tímabili lýkur og þessari mögulegu átta ára framlengingu, sem ógjörningur er að sjá fyrir hverjir fá, hvað sér ríkisstjórnin fyrir sér með það sem gerist hér árið 2034 þegar þessi lög falla úr gildi? Í 32. gr. frumvarpsins er sagt, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, en jafnframt falla úr gildi lög nr. 116/2006, með síðari breytingum. Lög þessu skulu hafa gildi í 23 ár frá gildistöku þeirra.“

Þá erum við komin fram til ársins 2034. Þegar lesið er um 32. gr. stendur einungis:

„Greinin þarfnast ekki skýringa.“

Hvers vegna leggur ríkisstjórnin það til að hér verði sett lög sem eiga að gilda í 23 ár og að þessi sömu lög verði felld úr gildi að þeim tíma liðnum? Nú vil ég fá skýrt og hreinskilið svar. Sjá ráðherrarnir fyrir sér að árið 2034 verði búið að „víla og díla“ Íslendinga inn í Evrópusambandið og þess vegna þurfi ekki að framlengja þessi lög? Þegar ESB hefur tekið hér við sjávarútvegsauðlindinni þarf að sjálfsögðu ekki neina íslenska lagasetningu um sjávarauðlindina. Það er beinlínis lagt til í þessu frumvarpi, frú forseti.