139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get lofað hv. þingmanni því að þetta frumvarp tryggir einmitt stöðu íslensks sjávarútvegs þannig að hann muni aldrei þurfa að fara undir Evrópusambandið og miðin og ráðstöfun þeirra verði alltaf undir íslenskri forsjá og lúti íslenskum lögum.

Varðandi gildistíma þessara samninga er líka skýrt kveðið á um það í frumvarpinu að þau verði endurskoðuð að sjö árum liðnum og reynslan metin og hvert framhaldið verði. Við getum ekki annað en treyst Alþingi á hverjum tíma, og gerum það, til að takast á við málið og leysa úr því á ábyrgan hátt. En tryggingin er til 15 ára og síðan höldum við áfram (Forseti hringir.) samkvæmt vilja Alþingis eins og hann mun þá liggja fyrir.