139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gott að hv. þingmaður bendir á þetta. Það sýnir bara sterka stöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þetta mál skuli vera flutt.

Varðandi lengd eða lokadag þessara laga o.s.frv. getur Alþingi í sjálfu sér hvenær sem er gripið inn í og breytt frumvarpinu. Alþingi fer með löggjafarvald á hverjum tíma og eins og tekið er skýrt fram í frumvarpinu tökum við ekki fram fyrir hendur löggjafans ef vilji er til breytinga.

Í þessu sambandi vil ég líka minna á lögin um stjórn fiskveiða, sem fjallað hefur verið um, að þau giltu fyrst bara í eitt og tvö ár. Hér er mikið framfaraspor frá því sem var. Meginmálið þegar við förum í þessa kerfisbreytingu er að hún verði gerð á grundvelli meðalhófs. Fiskurinn í sjónum er auðlind okkar og undirstaða þess sem við erum að ræða.