139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þó nokkrar áhyggjur af hv. þingmanni sem stígur aldrei í ræðustól, alveg sama hvaða mál er á dagskrá, án þess að tengja málið ESB. Það segir mér að hv. þingmaður þarf að hlusta frekar á umræður sem hér fara fram um þetta mál og lesa sér meira til um það, t.d. þá ályktun sem var samþykkt á sínum tíma að því er varðar aðildarumsóknina.

Hv. þingmaður fullyrðir að á einhverjum tímapunkti muni ESB taka við sjávarauðlindinni. Hvað er hv. þingmaður að tala um? Ef það verður niðurstaðan að ESB taki við sjávarauðlindinni munum við auðvitað aldrei ganga í ESB. Við erum á allt annarri vegferð varðandi þann þátt en hv. þingmaður. Ef hv. þingmaður telur að 15 ára nýtingarheimildir, eins og eru í þessu frumvarpi, tengist eitthvað ESB spyr ég náttúrlega um ályktun og afstöðu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum þar sem er verið að tala um 20 ára nýtingarheimildir: Tengist það eitthvað 20/20-áætlun ESB?