139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt sem hér er fullyrt að utanríkisráðherra vilji fara fram úr þeirri heimild sem Alþingi gaf. Ég hef ekki orðið vör við annað en að hæstv. utanríkisráðherra fari eftir þeirri leiðsögn sem hann fékk frá Alþingi í nefndaráliti, að halda öðru fram er fjarstæða.

Ég heyri að hv. þingmaður vill lítið ræða um stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum, sem eru nýtingarheimildir til 20 ára. Henni er tíðrætt um 20/20-áætlun eða -reglu Evrópusambandsins. Ef hv. þingmaður heldur því fram að 15 ára nýtingarheimildir séu í samræmi við 20/20-reglu Evrópusambandsins bið ég hana um að svara þessu: Eru 20 ára nýtingarheimildir sem Framsóknarflokkurinn talar fyrir í samræmi við þessa 20/20-heimild eða -reglu sem hún talar um? Hún kom aldrei til tals þegar var verið að ganga frá eða semja þetta frumvarp, enda er það ekkert tengt Evrópusambandinu. Hv. þingmaður má halda því fram eins oft og hún vill og tala á torgum um það (Forseti hringir.) eins oft og hún vill, en það er fjarstæða.