139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:16]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var eitt sem vakti athygli mína í ræðu þingmannsins sem mig langar til að spyrja hana aðeins nánar út í.

Nú er ljóst að það á að fara að lögfesta aðild Íslands að ETS-kerfinu evrópska, þ.e. viðskiptakerfinu með mengunarkvóta. Nú hafa margir samfylkingarmenn og fleiri talað um að það hafi verið mikil mistök þegar kvótakerfið var innleitt að mönnum væru gefnir kvótarnir, þ.e. verðmæti sem hægt væri að selja. Sýnist hv. þingmanni að í uppsiglingu séu svipuð mistök að mati þessa fólks, að verið sé að gefa mengunarkvóta sem fyrirtæki geta selt í framtíðinni og fénýtt?