139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir því að ég hafi rætt veðsetninguna sérstaklega því að ég var fyrst og fremst að fjalla um 6. gr. sem varðar úthlutun nytjakvóta þar sem lagt er til í frumvarpinu að upphaflega sé það til 15 ára að hámarki. Ég held því fram að það sé of stuttur tími. Ef þingmaðurinn vildi vera svo vænn að lesa ályktun framsóknarmanna um sjávarútvegsmál þá leggjum við til 20 ára nýtingarleyfatíma með framlengingu í fimm ár en hér er það lagt til í átta ár. Það er munur á þessu og það er gaman að því hvað samfylkingarþingmenn eru einstaklega vel að sér í stefnuskrá Framsóknarflokksins. Eftir á að hyggja hefur frá því um áramót orðið alveg gríðarleg eftirspurn eftir stefnu Framsóknarflokksins og þingmönnum Framsóknarflokksins ekki síst inn í ríkisstjórnina.

Ég fagna því að þingmaðurinn skuli hafa kynnt sér stefnuna en bið hann jafnframt að lesa hana betur því það er munur hér á.