139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, um grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um endurskoðun og breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er einnig fjallað um frekari fullvinnslu afla hérlendis, verndun grunnslóðar, aukna veiðiskyldu, frjálsar handfæraveiðar o.fl. (Gripið fram í.) Þessum markmiðum hefur nú að mestu verið fullnægt með þeim breytingum sem þegar hefur verið hrint í framkvæmd. Um þær hefur skapast sátt og þær hafa leitt til farsældar fyrir atvinnuvegina og byggðarlögin í landinu. Enn fremur er í stjórnarsáttmálanum kveðið á um að farið verði í heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og horft til þess að skapa sátt um eignarhald og nýtingu auðlindar sjávar.

Skipaður var endurskoðunarhópur hagsmunaaðila og stjórnmálamanna sumarið 2009 og skilaði hópurinn af sér skýrslu 1. september 2010 þar sem skilgreind voru helstu álitaefni í núverandi löggjöf, greiningarvinna var unnin um rekstrarumhverfi og stöðu sjávarútvegsins og bent á nokkra valkosti sem kæmu til greina við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni.

Í nóvember 2010 var skipaður samstarfshópur sex þingmanna stjórnarflokkanna til samráðs við smíði nýrra frumvarpa í ráðuneytinu. Frumvarpið tekur mið af skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á stjórn fiskveiða, starfi þingmannahópsins og samráði innan ríkisstjórnarinnar. Nú hafa verið lögð fram á Alþingi tvö frumvörp um stjórn fiskveiða, í því minna er gert ráð fyrir breytingum á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða, m.a. auknum strandveiðum, enn fremur auknum heimildum í byggðatengdar aðgerðir og breytingu á fyrirkomulagi þeirra. Einnig er þar gert ráð fyrir jöfnunaraðgerðum í þá veru að allir aflamarkshafar taki þátt í að leggja í svokallaða potta sem nýtast í þessar aðgerðir og að veiðigjald verði hækkað og hluta þess ráðstafað til sveitarfélaga.

Í stærra frumvarpinu, sem við ræðum hér, er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á kvótakerfinu þar sem tímabundnir nýtingarsamningar verði gerðir við núverandi handhafa veiðiheimilda og framsal og veðsetning aflaheimilda bönnuð. Kerfisbreytingin gerir ráð fyrir að farin verði blönduð leið nýtingarsamninga og hlutakerfis, þ.e. potta. Sú leið að samningsbinda nýtingarrétt auðlindarinnar og hafa þann samning tímabundinn er mikilvægasta breytingin í þeim kerfisbreytingum sem verið er að gera. Þar með eru tekin af öll tvímæli um meint eignarréttarlegt samband útgerðarinnar og auðlindarinnar og sameign þjóðarinnar í sjávarauðlindinni skýrð og treyst í lagatexta.

Fiskveiðistjórnarkerfinu verður sem sagt skipt upp í tvo meginflokka. Flokkur 1 inniheldur nýtingarsamninga við núverandi handhafa aflaheimilda. Í 1. flokki kerfisins eiga útgerðir sem hafa aflahlutdeild eða krókaaflamarkshlutdeild árin 2010 og 2011 rétt á gerð nýtingarsamninga gegn gjaldi. Samningurinn verður um nýtingu á aflaheimildum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til að mynda að standa í skilum með opinber gjöld og hafa gilda kjarasamninga við áhafnir. Nýtingarsamningurinn skal í upphafi vera að hámarki til 15 ára og hafi samningsaðili staðið við allar samningsskuldbindingar á hann rétt á viðræðum um endurskoðun og framlengingu á samningi sem ljúki fimm árum fyrir lok gildistíma samnings. Með fyrirvara um heimild Alþingis til frekari breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu og því að forsendur samnings um nýtingarleyfi hafi ekki breyst verður að 15 ára samningstíma liðnum heimilt að framlengja samning við handhafa nýtingarsamnings um átta ár.

Varanlegt framsal aflahlutdeilda er bannað. Þó gerir bráðabirgðaákvæði til 15 ára ráð fyrir heimild til varanlegs framsals með þeim takmörkunum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi fyrir hönd ríkisins sem og sveitarfélög skýran forleigurétt á aflaheimildum. Við ákvörðun um hvort forleiguréttur sé nýttur skal gæta að jafnræði, byggðasjónarmiðum og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar.

Svokallað leiguframsal innan ársins verður takmarkað við 25% af aflamarki útgerðar og þar með stuðlað að því að skip veiði sínar úthlutuðu aflaheimildir.

Tegundatilfærsla verður takmörkuð við 30%, framsal innan sömu útgerðar verður þó heimilt, og kvótaþingi verður komið á að nýju.

Veiðigjaldið verður tvöfaldað frá því sem nú er og tekjum af því ráðstafað með þeim hætti að 50% renni í ríkissjóð, 30% til sveitarfélaga og 20% til að efla nýsköpun, rannsóknir og markaðssetningu íslensks sjávarútvegs.

Þá er komið að flokki 2 þar sem aflamagni verður úthlutað án nýtingarsamninga og verður ráðstafað árlega í strandveiðihluta, byggðahluta, línuívilnun og bótahluta og leiguhluta. Í frumvarpinu er kveðið á um að á 15 árum flytjist allt að 15% allra aflaheimilda í leiguhluta í öðrum tegundum en þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Á fyrsta ári verði 4% flutt en síðan jafnt á ári þar til 15% er náð á fimmtánda ári. Það er gert ráð fyrir því að aflaheimildir þessar verði boðnar upp þannig að ráðherra hafi heimild til að ákvarða hámarksmagn sem hver og einn getur boðið í og að þessar heimildir verði leigðar út á kvótaþingi sem komið verður á fót.

Öll aflaaukning í þorski, ýsu, ufsa og steinbít skiptist þannig að 55% aukning fer á nýtingarsamninga og 45% renna fyrst til byggða- og strandveiðihluta og síðan í leiguhluta. Þegar leyfilegur úthlutaður heildarafli í þessum tegundum nær meðaltali síðustu 20 ára mun aflaaukningin skiptast til helminga á 1. og 2. flokk kerfisins. Í byggðatengingu aflaheimilda er gert ráð fyrir því að sveitarfélögum gefist kostur á að úthluta aflaheimildum sem falla þeim í hlut með þeim skilyrðum að fiskiskipin eigi heimahöfn á viðkomandi stað, að útgerðin eigi þar heimilisfesti og að aflanum verði landað þar til vinnslu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að jafna framlag allra fisktegunda í tilfærslu til hlutakerfisins á grundvelli heildarþorskígilda. Uppsjávartegundir hafa hingað til ekki lagt til í tilfærslu til ýmissa byggðatengdra jöfnunaraðgerða sem aðilar með aflamark í botnfiski hafa gert.

Mikil vinna er nú að baki við gerð þessa frumvarps og byggist hún á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna og vinnu endurskoðunarhópsins, þingmanna, ráðherra, lögfræðinga og starfsmanna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ég tel að þessi frumvörp sem hefur verið mælt fyrir á Alþingi uppfylli þau markmið stjórnarsáttmálans sem hér koma fram:

Að tryggja varanlegt eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar á auðlindum hafsins, vernda fiskstofna og nýta þá með sjálfbærum hætti, tryggja jafnræði við úthlutun aflaheimilda og verndun atvinnufrelsis, að við nýtingu fiskstofna verði tekið tillit til byggða og atvinnumála, stuðla að hagkvæmni og tryggja rekstrarskilyrði sjávarútvegsins til langs tíma.

Það verður að draga úr þeim hörðu markaðslögmálum sem einkennt hafa kvótakerfið síðustu 20 árin og leitt til mikils fjármagnsflutnings úr greininni í óskyldan rekstur og brask. Einnig hefur átt sér stað mikil samþjöppun aflaheimilda á fárra manna hendur sem leitt hefur til mikillar byggðaröskunar og tekjumissis bæði íbúa og sveitarfélaga sem mörg hver hafa orðið illa fyrir barðinu á sérhagsmunahyggju í nafni lögmála markaðarins.

Ég tel að með þessum grundvallarbreytingum á kvótakerfinu séum við að stíga gæfuspor til réttlátara og heilbrigðara fiskveiðistjórnarkerfis sem tekur mið af heildarhagsmunum í stað sérhagsmunagæslu sem mun skila þjóðinni sanngjörnum arði og stuðla að betra afkomuöryggi íbúa sjávarbyggðanna. Sjávarbyggðirnar hafa háð mikla varnarbaráttu vegna óvissu um afkomu sína sem ræðst af tilviljunarkenndum ákvörðunum útgerðaraðila um sölu aflaheimilda frá stöðunum og leitt hefur til þess að lifibrauðið hefur horfið og eignir fólks orðið verðlausar á einni nóttu.

Ég er stolt af þessu frumvarpi vegna þess að það markar tímamót. Það er ekki fullkomið og það eiga að sjálfsögðu eftir að fara fram miklar umræður um það úti í samfélaginu. En hér er blað brotið í sögu eins umdeildasta máls hér á landi, máls sem allir hafa skoðun á. Ef þessari ríkisstjórn tekst ekki að breyta núverandi kvótakerfi við þessar aðstæður og setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá er þjóðin ef til vill búin að missa það tækifæri úr greipum sér og það er óvíst að það komi aftur í bráð. Það er því mikilvægt að baráttan fram undan við gæslumenn sérhagsmuna verði þannig að þessar grundvallarbreytingar verði ofan á.

Við erum á þeirri vegferð að breyta óréttlátu kvótakerfi og það erum við að gera með þessum frumvörpum. Við erum að styrkja afkomuöryggi íbúa sjávarbyggða. Það er samfélagsleg ábyrgð í stað sérhagsmunagæslu. Við erum að gera nýliðun mögulega, við erum að auka á jafnræði við úthlutun aflaheimilda og fyrst og fremst að tryggja að arðurinn af auðlindinni skili sér til þjóðarinnar og að auðlindaákvæði verði sett inn í stjórnarskrá í framhaldinu.