139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var líka mjög skýrt svar og ég þakka hv. þingmanni fyrir það. Þá liggur það fyrir og þá er sú staða uppi hjá smábátaeigendum að ef þeir gera ekki kjarasamninga komast þeir ekki á sjó. Þá fá þeir ekki að róa, þeir hafa ekki heimild til þess að veiða.

Annað sem ég vil velta aðeins upp við hv. þingmann varðar byggðaáhrifin. Það er alveg rétt að það er ýmislegt sem við getum talað um þar. Mörg byggðarlög hafa orðið mjög illa úti, það þekkjum við. Ástæðan er meðal annars sú að það hefur orðið fækkun á skipum, það hafa orðið aukin afköst í fiskvinnslufyrirtækjum sem gerir það að verkum að það dregst saman. Telur hv. þingmaður það vonda þróun að bátunum hefur fækkað? Telur hv. þingmaður mikilvægt að snúa þessu við, fjölga skipunum aftur sem veiða sem gerir það auðvitað að verkum að hagkvæmnin verður minni? Telur hv. þingmaður til dæmis slæma þróun hafa orðið í fiskvinnslunni með auknum afköstum sem hefur auðvitað gert það að verkum að það hefur ekki verið unnt að vinna fisk alls staðar þar sem áður var? Telur hv. þingmaður að það eigi að vera markmið þessa frumvarps að snúa þessari þróun við, fjölga fiskvinnsluhúsunum, fjölga bátunum?