139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði hvorki svarið við því hvaða sjávarbyggðir væri verið að styrkja með þessu né á kostnað hverra. En það er nokkuð augljóst þegar talað er um sérhagsmuni — og ég spurði hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, um það og hv. þingmaður er formaður — að þeir sérhagsmunir sem verið er að verja þegar annars vegar er talað um almennt kerfi sem hefur þróast á lögmálum markaðarins, og við getum verið sammála um að það þurfi að fara í einhverjar jöfnunaraðgerðir í einhverju en þær felast hins vegar allar í pólitískum afskiptum sérhagsmuna, allar. Og það er hægt að fara yfir þær greinar í báðum þessum frumvörpum og segja: Hér er verið að færa aflaheimildir úr Suðurkjördæmi í Norðvesturkjördæmi á grundvelli pólitískra afskipta.

Hvað eru sérhagsmunir og hvað eru almannahagsmunir? Eru það almannahagsmunir að minnka arðsemi greinarinnar fyrir hönd þeirra sem búa á ákveðnum svæðum á landinu? Er það ekki sérhagsmunagæsla?