139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo með þetta kvótakerfi að það lýtur ekki náttúrulögmálum. Kvótakerfið hefur frá því að það var sett á verið pólitísk ákvörðun hverju sinni. Það breytist ekki sisvona eftir því hvernig vindar blása. Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um framsal sem hefur haft ákveðnar afleiðingar fyrir byggðirnar. Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að horfa fram hjá því að aflaheimildir séu veðsettar þó að veðsetning aflaheimilda sé bönnuð. Það hefur verið horft fram hjá því. Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem gera það að verkum að hlutirnir eru eins og þeir eru í dag. Þeir stjórnarflokkar sem eru við völd núna voru kosnir til að koma á meiri jöfnuði, afkomuöryggi byggðanna og að nýliðun geti átt sér stað. (Gripið fram í.) Og það erum við að gera.