139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

erlend staða þjóðarbúsins.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Seðlabankinn hefur nú orðið að leiðrétta tölur sínar aftur í tímann og kemur í ljós að við lok árs 2009 var erlend staða þjóðarbúsins 623,3 milljörðum kr. lakari en þá var áætlað. Í lok árs 2010 var staðan 400 milljörðum lakari en menn áætluðu á sínum tíma. Hið sama átti við um ársfjórðungsuppgjör sem hafa verið býsna mörg fram á þennan dag en iðulega hefur skeikað mörg hundruð milljörðum.

Jafnframt er komið í ljós að nettógjaldeyrisvaraforði Seðlabankans er neikvæður. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni. Hvað finnst hæstv. fjármálaráðherra eðlilegt að gera til að bregðast við þessari stöðu og hvers vegna telur hann að þessi hafi verið raunin? Vekur þetta ekki upp spurningar um aðferðafræði bankans, hvort aðrar tölur séu jafnrangar og þessar því að þetta voru mikilvægar tölur? Þetta voru þær tölur sem hvað oftast var vísað til þegar verið var að reyna að sannfæra Íslendinga um að það væri ekkert mál fyrir þá að bæta á sig Icesave-kröfunum. Vill svo til að skekkjan í lok árs 2009, 623,3 milljarðar, er ótrúlega nálægt því sem menn sáu fyrir sér að gæti lent á íslenska ríkinu í vaxtagreiðslum og afborgunum af Icesave í erlendri mynt. Óhætt er að segja að málflutningurinn og umræðan hefðu orðið allt önnur ef réttar tölur hefðu verið birtar á sínum tíma.

Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni. Á hvaða viðbrögð kallar þetta að mati hæstv. fjármálaráðherra? Er ástæða til að láta gera stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum, fara yfir aðferðafræði hans og aðrar tölur með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum sem sýna hversu ótrúlega mikil skekkja hefur verið í málflutningi bankans?