139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fjárfestingar í orkufrekum iðnaði.

[10:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni á fundi Samfylkingarinnar fyrir skömmu sagði hæstv. forsætisráðherra að við gætum verið að tala um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði tengdum virkjanaframkvæmdum upp á 300–400 milljarða á næstu þremur til fimm árum og því mundu fylgja 6.000–7.000 ársverk á uppbyggingartímanum. Grundvöllurinn að þessum framkvæmdum liggur í því að stefnt verði að að minnsta kosti tveimur umfangsmiklum fjárfestingarverkefnum í orkufrekum iðnaði auk þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þegar eru komnar af stað við Búðarhálsvirkjun, álverið í Straumsvík, kísilverksmiðju í Helguvík, gagnaver á Suðurnesjum, álverið á Reyðarfirði og víðar. Hún sagði einnig að hún reiknaði með að það styttist verulega í að tilkynnt yrði um framkvæmdir í tengslum við orkufrekan iðnað á Norðurlandi. Hún væri orðin mun bjartsýnni en áður á að Norðurál nái að semja við HS Orku og Orkuveituna um nægilega orku til að álverið í Helguvík geti orðið að veruleika með tilheyrandi framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun og Reykjanesvirkjun.

Ég vil biðja hæstv. iðnaðarráðherra að fara aðeins nánar yfir þetta með okkur. Hér er verið að vekja væntingar um stærstu skref í fjárfestingum í tengdum verkefnum sem eiga að slá á það mikla atvinnuleysi sem hér hefur ríkt, og við höfum gagnrýnt mjög í stjórnarandstöðunni að ekki skuli hafa verið farið í, og forsendurnar sem eru gefnar í ræðu hæstv. forsætisráðherra eru að mínu viti verulega hæpnar. Það er frumvarp í þinginu sem kveður á um styttingu á nýtingartíma virkjana af náttúruauðlindum sem mun hafa veruleg áhrif á þetta. En mig langar að heyra aðeins í hæstv. iðnaðarráðherra um það sem hér er á döfinni og skýringar hennar á orðum hæstv. forsætisráðherra.