139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fjárfestingar í orkufrekum iðnaði.

[10:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér var ekkert nýtt á ferðinni. Það er eins og áður, fjölmargt á döfinni og fjölmargt í pípunum, en þau vonbrigði hafa orðið að Norðurál og HS Orka eru komin með sín mál fyrir gerðardóm þannig að enn meiri töf er á því.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að rammaáætlun og þar með röðun virkjunarkosta og verndarsvæði og vatnalög verði afgreidd fyrir næsta vetur og á grundvelli þess verði hægt að hefja frekari virkjunarframkvæmdir. Við erum með frumvarp í iðnaðarnefnd frá hæstv. ríkisstjórn þar sem á að stytta verulega nýtingartíma auðlindanna hvað varðar virkjunarkosti. Það hefur komið fram hjá umsagnaraðilum að þetta mun sérstaklega gera jarðvarmavirkjanir mjög óhagkvæmar, þetta mun leiða til hækkandi orkuverðs í landinu og draga úr samkeppnishæfi okkar.

Ég held því, virðulegi forseti, að allar þær bjartsýnisspár sem hér er verið að ræða — fjölmargt á döfinni, nýir virkjunarkostir — séu bara enn eitt loforðið sem ríkisstjórnin getur (Forseti hringir.) ekki staðið við. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því til hvaða virkjunarkosta hún þurfi að grípa til að geta staðið við þessi fögru fyrirheit, (Forseti hringir.) aðra þá en komnir eru af stað og þá sem þarf að bæta við til að þessi áform geti gengið eftir, þ.e. (Forseti hringir.) til að ríkisstjórnin geti staðið við eitthvað af loforðum sínum og yfirlýsingum.