139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

sameining háskóla landsins.

[11:07]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég ítreka mikilvægi þess að tekið verði af skarið um sameiningu háskólanna og að reknar verði öflugar háskólastofnanir hér á landi.

Það er ekki gott, eins og allt stefnir í með þessu áframhaldi, að það verði fleiri háskólarektorar í landinu en leikskólastjórar. Þingið verður að taka frumkvæði í málinu. Fjárlög næsta árs eiga að taka mið af því að fé verði varið til rekstrar tveggja öflugra háskóla. Þannig verði starfræktar tvær vísindastofnanir á landinu með nokkrar starfsstöðvar sem hafa getu til að vinna að rannsóknum og bjóða upp á háskólakennslu eins og hún gerist best í heiminum.

Verkefni háskólanna sjálfra er síðan að koma sér saman um hvernig sameiningunni verði best háttað, það að á ekki að ákveða það hér í þingsal, það eiga skólarnir sjálfir að ákveða. En stefnan verður að koma héðan.

Við verðum að leggja aukna áherslu á öflugar háskólastofnanir. Það gera allar nágrannaþjóðir okkar sem vilja auka þekkingarstig, lífskjör og samkeppnishæfni. Höfum það að leiðarljósi við endurskipulagningu háskólakerfisins, (Forseti hringir.) sem ég skora á Alþingi og ráðherra að ráðast í hið fyrsta.