139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

viðvera ráðherra -- framlagning frumvarpa fyrir sumarhlé.

[11:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta eingöngu til þess að vekja athygli á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki haft tök á því að koma til fundarins við upphaf þessarar umræðu. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri staddur í húsinu. Ég get vel skilið að þær aðstæður kunni að vera hjá honum að hann eigi ekki gott með að sitja hér við upphaf umræðunnar, en þá verðum við að gera þá kröfu um að henni verði frestað um sinn. Það er óþolandi fyrir okkur sem höfum lagt heilmikla vinnu í að undirbúa okkur fyrir umræðuna að hæstv. ráðherra sé ekki til staðar til þess að svara fyrir einstök atriði sem við þurfum að fá skýringar á.

Þetta frumvarp er hvorki hrátt né soðið, eins og allir vita. Það er algjörlega óunnið og það eru gríðarlega margar spurningar sem hæstv. ráðherra einn getur svarað. Þess vegna er mikilvægt að hæstv. ráðherra sé kominn til sætis síns áður en umræðan hefst og fylgist með henni úr þingsalnum. Ég hef alveg skilning á því ef aðstæður eru þannig að hæstv. ráðherra getur ekki verið viðstaddur upphaf fundarins en þá er það ósk mín að fundinum verði frestað (Forseti hringir.) um sinn.