139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil út af fyrir sig sjónarmiðið um mismunandi framlög en hins vegar er augljóst að það er ónothæft eins og það er útfært í þessu frumvarpi vegna þess að verið er að vísa til hugtaks sem er búið til af Hagstofu Íslands um útgerðarflokka og hugtakið getur tekið breytingum hvenær sem er án þess að Alþingi hafi nokkuð um það að segja.

Í öðru lagi er athyglisvert það sem kom fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að þessi rúmlega 19% eru ekki hámark. Með því að taka tillit til mismunandi framlegðar getur veiðigjaldið sveiflast vegna þess að ætlunin er að ná þessari tilteknu upphæð. Það þarf síðan að fara rækilega í saumana á því hvernig veiðigjald getur komið niður á einstökum útgerðarflokkum.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið óþreytandi að segja okkur frá því hve gríðarlega hagkvæmir smábátarnir séu. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að veiðigjaldið á þá báta verði sérstaklega hækkað og þeir verði að (Forseti hringir.) borga enn þá hærra veiðigjald til að greiða niður aðra útgerðarflokka sem skila minni framlegð.