139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að fyrsta skilyrðið til að ná sátt um sjávarútvegsmálin sé að finna fyrirkomulag sem er ekki í ósætti við allan sjávarútveginn, eins og þetta frumvarp er úr garði gert. Það hefur enginn tekið til máls í sjávarútveginum sem fagnar þessu frumvarpi. Nú síðast ályktaði Alþýðusamband Íslands, heildarsamtök launþega á hinum almenna markaði, eða benti á að frumvarpið, yrði það að lögum, mundi grafa undan gengi íslensku krónunnar og gera það að verkum að kjarasamningar á Íslandi færu í uppnám.

Varðandi leiguna fær hæstv. ráðherra mjög rúmar heimildir í þeim efnum, ekki nóg með það heldur er líka gert ráð fyrir því að ráðherra geti leigt til sín aflahlutdeildir fyrirtækja sem fara t.d. illa í gjaldþrotum og síðan hafi hæstv. ráðherra heimildir til óskilgreindra nota og þarfa til að bjóða upp í alls konar útgáfum. Ég ítreka að það undrar mig mjög að hinn frjálslyndari armur (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkanna skuli hafa látið þetta yfir sig ganga. Það er kannski til marks um að sá frjálslyndi armur sé ekki lengur til.