139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegu forseti. Hv. þingmaður spurði mig að því hvort aukning í byggðatengdum aðgerðum mundi ekki nýtast smábátum. Það mun verða mjög misjafnt vegna þess að slíkar aðgerðir í beinast eðli málsins samkvæmt sérstaklega að þeim byggðum sem hafa látið undan síga og misst frá sér aflaheimildir. Nú vill svo til að í ýmsum byggðum, til að mynda á Vestfjörðum svo að við tölum bara um þá, hafa aflakvótarnir verið að aukast. Það er alveg ljóst að þessar aðgerðir munu gera það að verkum að aflakvótarnir í þeim byggðarlögum munu minnka, þau munu ekki njóta neinna byggðatengdra aðgerða vegna þess að þau hafa verið að auka við sig aflaheimildir.

Hv. þingmaður spurði síðan: Hverjir munu njóta? Ég skal bara svara eins og er: Ég hef ekki hugmynd um það. Það er ekki nokkur maður sem veit það því að ráðherra hefur alræðisvald. Hæstv. ráðherra Jón Bjarnason mun, ef honum endist líf í þessari ríkisstjórn og Samfylkingin hendir honum ekki út, geta ráðið þessu á næsta ári. Síðan kemur nýr ráðherra. Hann hefur allt aðrar heimildir (Forseti hringir.) og þær verða altækar. Ráðherra getur farið með þær að vild.