139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kalla það pottajukk þegar verið er í fyrsta lagi að stórauka heimildirnar inn í þessa potta. Það er verið að auka þær um 50%. Það fara núna 20 þús. tonn í þessar aðgerðir, byggðalegu, félagslegu og atvinnulegu aðgerðir, en það á að bæta í þetta 11 þús. tonnum og það finnst mér vera pottajukk.

Það er alveg rétt að ég ber ábyrgð á því að ýmsum þessum pottum var komið á og ég axla alveg þá ábyrgð glaður. Ég tel að það hafi verið hluti af þeirri sátt sem við náðum að hafa tiltekið hóf á því sem færi inn í þessa tilfærslupotta. Og það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra spurði mig um varðandi það að setja þak t.d. á strandveiðarnar. Já, það verður auðvitað að setja þak á strandveiðar en það þak sem verið er að boða í þessu frumvarpi og í því litla er auðvitað allt of hátt.

Og loks varðandi uppsjávarfiskinn, ég er eindregið þeirrar skoðunar að gæta eigi meira jafnræðis með því að allir sem fái úthlutað aflaheimildum leggi inn í þessa potta með einhverjum hætti. Það sem veldur deilum núna er í fyrsta lagi hækkun á pottunum og í öðru lagi hitt, vilja menn skoða einhverjar aðrar útfærslur? (Forseti hringir.) Ég er meira en tilbúinn til þess.