139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:50]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hér sitja hv. stjórnarsinnar eins og feimin börn í fermingarundirbúningi og halda að þau séu að fjalla af alvöru um fjöregg landsins og mikilvægi þess. Tómt kjaftæði og bull, virðulegi forseti, í stuttu máli. Það er erfitt að ætla sér að vera í Alþingissal að ræða af alvöru þau ruglukollamál sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja fyrir Alþingi til breytinga á fiskveiðistjórn landsins. Menn tala hér eins og nýgræðingar sem hafa ekki einu sinni séð út á sjó hvað þá meira. Það eina sem þau ganga út frá, virðulegi forseti, er að það sé hagkvæmt fyrir íslenska þjóð að nýta auðlindina í hafinu, hagkvæmt fyrir íslenska þjóð í heild, ekkert staðarpot, engar geðsveifluákvarðanir eða hugdettur sem standast ekki rök.

Í Eþíópíu reyndu menn fyrir áratugum að taka landið af bændum og ætluðust til þess að þeir sem aldrei höfðu komið nálægt búskap færu í búskapinn. Í nokkur ár ráfuðu þeir um túnin og engjarnar og gerðu ekki neitt og allt fór í órækt. Þetta er nákvæmlega það sama og þessi hæstv. vinstri stjórn leggur til, að sovéskri fyrirmynd, að setja inn í íslenskt þjóðfélag og rugla þar öllu og koma öllu í uppnám. Þetta er alvara málsins og þetta er staðreyndin. Og það er ekkert skrýtið þó að stjórnarsinnar hér á þingi flýi úr salnum þegar þeir fá þennan sannleika framan í sig óþvegið.

Virðulegi forseti. Allt þetta kerfi sem nú er rætt um og er vanbúið, ófullburða fóstur, ekki einu sinni hugmynd. Þetta er ekkert nema púsluspil og hugdettur sem er ekki nokkur leið að hnýta saman en þetta byggist á því að flytja til störf á landinu, brjóta niður fjöregg íslenska samfélagsins, sjávarútveginn, sem allt okkar byggist á, 60% af þjóðartekjunum kemur frá okkar auðlind og það á að rusla því öllu út, skapa óvissu, tilflutning, hrikalegan tilflutning í störfum og atvinnu án þess að nokkuð færi sé á því.

Virðulegi forseti. Ef það væri ákveðið að taka réttinn af FH í Hafnarfirði til að halda áfram að standa fyrir öflugu uppbyggingarstarfi í íþróttum, taka réttinn af þeim og segja: Nei, nú er komið nóg í Hafnarfirði, við skulum flytja þetta á Langanes. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað þar. Þangað hljóta einhverjir að koma sem búa til fótboltavöll, fótboltalið, handboltalið og standa sig vel, það hlýtur að vera, virðulegi forseti. Þetta er pólitíkin hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er á vægu íslensku máli, virðulegi forseti, aulabárðavinnubrögð.

Hver á að kaupa fasteignirnar þegar búið er að stúta fyrirtækjunum? Hver á, virðulegi forseti og hæstv. utanríkisráðherra, að kaupa fyrirtæki Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins í Vestmannaeyjum sem verður að leggja upp laupana ef þetta gengur eftir? 17.500 þorskígildistonn skulu burtu úr stærstu verstöð landsins, jafnvirði umfangs annarrar stærstu vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum eða níu báta með mannskap og öllu tilheyrandi bæði til lands og sjós. Þetta er slík vitleysa, virðulegi forseti, að það er ótrúlegt að þurfa að standa hér og ræða þetta kjaftæði.

Fyrir nokkrum missirum voru 25 sjávarútvegsfyrirtæki á hlutabréfamarkaði. Hver vildi kaupa í þeim? Enginn. Vegna þess að útvegurinn er fyrst og fremst áhætta, útgerðarmenn eru fyrst og fremst þjóðnýttir og skapa grundvöllinn fyrir þessu þjóðfélagi af því að þeir hafa metnað og vilja til að standa með fólkinu í landinu. Hæstv. ríkisstjórn stendur ekki með fólkinu í landinu. Eins og sagt er til sjós, hún ælir á það og hikar ekki við það nótt sem nýtan dag. Forsætisráðherra stendur í fremstu víglínu með fylgisvein sinn, Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem bara hringlar augunum ef eitthvað kemur upp sem þarf að ræða með rökum, öryggi, alvöru og metnaði. Það er ekki til í því landslagi sem við erum að glíma við.

Það er álíka viturlegt, virðulegi forseti, að klippa íslensku handritin, klippa Flateyjarbók, klippa skinnin í 300 þúsund tætlur og dreifa þeim úr flugvél yfir landið, eins og að brjóta upp íslenskan sjávarútveg sem er að skila okkur því sem við höfum úr að spila í dag og er grundvöllur alls kerfisins. Hvernig getur hæstv. sjávarútvegsráðherra lokað augunum fyrir þessu og látið teyma sig, svo vægt sé til orða tekið, á asnaeyrunum?

Hvað er að þessu fólki? Það er eitthvað mikið að því. Það ætti ekki að vera til umfjöllunar á Alþingi að þurfa að tala á þennan hátt en vera um leið spegilmynd af sjónarmiðum fólksins í landinu, því að þetta er það sem fólk spyr um úti í byggðunum í dag: Hvað eru menn að gera? Hvaða rugl er á ferðinni hjá þeim sem þetta fólk skilur hvorki haus né hala á, enda ekki við því að búast?

Svo koma sérfræðingar ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir lýsir því yfir að það sé engin fjárfesting í sjávarútvegi, það hafi ekki verið í mörg ár. Hvaða rugl er þetta? Þetta er eins og þegar hún kom með skötuselinn, hv. þingmaður, síðastliðið haust, að hann hefði fundist fyrir þremur árum og nú væri byrjað að veiða hann. Það eru 100 ár síðan byrjað var að veiða hann við Ísland. Þetta er vitneskjan, þetta er reynslan og þetta er verkvitið sem liggur á bak við störf ríkisstjórnarinnar þegar hún ruggar íslenska þjóðfélaginu og er alveg sama hvort það er upp eða niður. Það styttist í það, virðulegur forseti, að kalla verður flotann, kalla sjómenn, kalla mannskapinn í land til að sýna þeim háttvirtu herrum sem stjórna þessu landi í dag hvar Davíð keypti ölið. Það verður að sýna þeim það svart á hvítu. Allir aðilar málsins til lands og sjós, öll félög sjómanna, atvinnurekenda, hagfræðingar háskólans, allir eru á móti þessu máli og sjá ekkert gott í því, ekkert. Það er merkilegt. Þeir benda ekki á eitt einasta dæmi sem er skynsamlegt, ekki eitt einasta. Svo stendur hæstv. sjávarútvegsráðherra hér og blikkar augunum og heldur að menn skilji eitthvað á annan hátt en þessir menn. Það er ekki slíku að dreifa. Svo eru sérstakir menn á launum hjá ríkisstjórninni sem kalla sig sérfræðinga, Þórólfur Matthíasson, Gunnar Helgi Kristinsson og fleiri, sem eru launamenn ríkisstjórnarinnar að blaðra um mikilvægi og skynsemi í þessum efnum. Það stendur ekki steinn yfir steini. Engar fjárfestingar í útvegi, sagði varaformaður sjávarútvegsnefndir og segir að ASÍ hafi farið fram úr sér í útreikningum og útvegsmenn líka, þetta sé allt á einhverjum misskilningi byggt, vanþekkingu hjá þeim aðilum sem eru á kafi ekki dögum saman, vikum saman, árum saman heldur áratugum saman að ná afrakstri út úr íslensku fiskveiðilögsögunni. Við stöndum svo vel í dag sem raun ber vitni vegna þess að þarna eru dugmiklir afreksmenn og þá á að lemja með svipum og kylfum.

Tökum bara dæmi. Engin fjárfesting, sagði varaformaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. Bara á síðustu missirum kom ný Bergey til Vestmannaeyja, Vestmannaey, Dala-Rafn, Þórunn Sveinsdóttir. Gamli Dala-Rafn er núna Stígandi, rekinn áfram í Eyjum, Þórunn Sveins heitir Suðurey, svo var það Gullberg sem er Kópur í dag. Gullbergið og Bergur komu fyrir ekkert löngum tíma ný skip til Eyja. Ísfélag Vestmannaeyja hefur keypt og er að láta ljúka smíði á Heimaey VE 1 í Ameríku. Ríkisstjórn Íslands ætti að taka þetta fyrirtæki sér til fyrirmyndar og þora að gera eitthvað jákvætt og framsækið þó að það halli á í þjóðfélaginu að sumu leyti. En það gerir ríkisstjórnin ekki. Hún fer bara í silkibrækurnar sínar og tjúttar í einhverjum partíum, einhverjum karlaklúbbum, og allt er þetta mál með þeim hætti að það er eins og það sé einhver fylliríiskarlaklúbbur á blússandi fylliríi sem er að skila tillögum inn í Alþingi Íslendinga. — Og þarna kemur einn partígaurinn úr þessum hópi en hleypur strax út aftur.

Þannig er það, virðulegi forseti, að það er erfitt að ræða þessi mál í alvöru því að endarnir eru allir trosnaðir. Það er ekkert hnýtt upp, ekkert splæst og ekkert gert klárt, það er allt í lausu lofti. Svo er þetta sett í skoðun og umfjöllun og ferli og umræðupólitík. Hvað er þetta fólk að gera í pólitík? Það ætti að banna því að vera í pólitík. Þetta eru hryðjuverkamenn, skemmdarverkamenn. Virðulegi forseti. — Ég tek aftur hluta af þessu orði.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna í ræðustól Alþingis.)

Mjög varkár, virðulegi forseti. Ég nefndi fjárfestingar, við skulum taka Steinunni sem var Helga, sem er á Hornafirði núna, Þóri og Hvanney, Ásgrím Halldórsson, Jón Eðvalds, allt miklar fjárfestingar, bara svo ég nefni dæmi í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin og Ísfélagið hafa sett milljarða króna undanfarin ár í endurbætur í tækjabúnaði og aðstöðu ekki bara þar heldur líka á Langanesi, eins og Grandi reyndar líka, þeir eru að byggja upp um landið allt til hagsbóta fyrir land og þjóð. Þetta verðum við að fjalla um til að klára dæmið í einhverri skynsemi. Ef ætti að loka til að mynda Ísfélaginu í Vestmannaeyjum vegna þess að það á að taka 40–50% af kvótanum þeirra samkvæmt tillögum hæstv. sjávarútvegsráðherra, ef ætti að loka því, kippa því úr sambandi, virðulegi forseti, þyrfti annaðhvort að loka Ísfélaginu að stórum hluta eða loka starfsemi Ísfélagsins á Langanesi. Er það það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að boða en veit auðvitað ekkert um þetta, ekkert. Og það er alveg grábölvað að þurfa að nota orðalag sem er einfaldur sannleikur í þessu máli. Það er grábölvað. Það er raunar fyrir neðan virðingu Alþingis að þurfa að tala þannig en tilefni er gefið til þess. Og þá verða menn að tala mannamál og þá hlýtur að fara eitthvað inn af lúkarsmáli í þeim skýringum.

Obbinn af því fólki sem er að undirbúa þetta fyrir hæstv. ríkisstjórn setur sig ekki einu sinni inn í sjávarútveginn og vill ekki kynna sér hann. Það tekur bara einhverjar hugdettuhugmyndir og flaggar þeim án þess að nokkuð sé hægt að vinna úr því. Það ætti í rauninni að kvarta yfir því, virðulegi forseti, að maður noti ekki nógu sterk orð hér úr ræðustól til að lýsa stöðunni í þessum efnum hjá hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Afraksturinn fyrir þjóðarheild skiptir öllu máli og ef flytja á 15 þús. eða 17 þús. þorskígildi frá einum stað á einhvern annan verður að flytja hundruð starfa, tækifæri sem enginn er til að taka við. Það er langtímamarkmið að vinna úr íslenskri sjávarauðlind, þ.e. fiskveiðar, vinnsla og markaðssetning. Núna kostar kílóið af þorskhnakka á Spáni tvisvar sinnum meira en dýrustu steikur á Spáni. Af hverju? Af því að menn hafa verið í markaðssetningu og það skilar sér inn í þjóðarbúið í tekjum, atvinnu, skattpeningum og drifkrafti og ef á að slátra þessu fara allar fjárfestingar til fjandans, virðulegi forseti.

Það er nú svo að það verður að hleypa þessu í þetta ferli að einhverju leyti. Ríkisstjórnin hefur vald til þess meðan hún hangir á snaganum en það verður vonandi stutt í það að hún hafi manndóm í sér til að segja af sér, af því að hún er ekki burðug til að standa fyrir því hlutverki sem hún á að gera, að verja íslenska þjóð, verja íslenska möguleika, skapa fjárfestingu, eyða atvinnuleysi, bæta velsæld á Íslandi bæði til sjávar og sveita.